
Hafna beiðni frá Namibíu um framsal
Málflutningur í Fishrot málinu fór fram í gær en í því eru fyrrum viðskiptafélagar Samherja, og fyrirtæki þeim tengd, grunaðir um stórfelld brot í tengslum við útboð á hestamakrílskvóta. Þeirra á meðal eru fyrrum ráðherrar í ríkisstjórn Namibíu, Sacky Shangala og Bernhard Esau.
Við málflutning í gær upplýsti ákæruvaldið að það hefði lagt fram beiðni um að þrír íslenskir ríkisborgarar yrði framseldir til Namibíu svo hægt verði að birta þeim ákæru og rétta yfir þeim. Samkvæmt frásögn The Namibian eru þetta þeir Aðalsteinn Helgason, Egill Helgi Árnason og Ingvar Júlíusson. Íslendingarnir eru tilgreindir á ákæruskjali saksóknara en dómari málsins hefur sagt að þeir verði ekki á meðal sakborninga fyrr en þeir hafa verið formlega ákærðir og framseldir til Namibíu.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að erindi þess efnis hafi borist. Því hafi þegar verið hafnað enda engin heimild í lögum til að framselja íslenska ríkisborgara.
Í frétt um málið sem birtist á vef rúv í gærkvöld var sagt að þeir Aðalsteinn, Egill Helgi og Ingvar sættu nú þegar ákæru í málinu. Það er ekki rétt því eins og áður sagði hafa þeir ekki verið formlega ákærðir þótt vilji sakskóknara standi til þess.