Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm súr, sólrík og sumarleg fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: St Vincent - The Melting of the Sun

Fimm súr, sólrík og sumarleg fyrir helgina

23.04.2021 - 14:05

Höfundar

Við fögnum sumri með feitum pakka í fimmunni þar sem; Chemical Brothers leysa vandann, jazz-brjálæðingarnir Sons of Kemet fá Kojey Radical til að höstla með sér, Sir Paul McCartney endurskapar lag með Khruangbin, St. Vincent hellir upp á súra sækadelíu og rapparinn Polo G rappar um gellur og gullkeðjur.

Chemical Brothers – The Darkness That You Fear

Það eru komin tvö ár síðan Tom og Ed sendu frá sér hina frábæru No Geography sem fékk Grammy-verðlaun fyrir besta danslagið og plötuna í fyrra. Nú er aftur komið að því að bræðurnir leysi vandann og þeir gera það svo sannarlega með laginu The Darkness That You Fear sem endurspeglar endurnýjað æði bræðrana fyrir dub-tónlist.


Sons Of Kemet með Kojey Radical – Hustle

Breska sveitin Sons Of Kemet er ein af þeim stærri í jazz-bransanum þar í landi og vakti verðskuldaða athygli og hlaut tilnefningu til Mercury-verðlauna fyrir plötu sína Your Queen Is A Reptile fyrir þremur árum. Nú á næstunni er að detta inn ný plata sem hefur fengið nafnið Black to the Future. Fyrsti söngull er lagið Hustle þar sem breski rapparinn Kojey Radical er í aðalhlutverki og Lianna La Havas í bakröddum.


Paul McCartney, Khruangbin – Pretty Boys

Platan McCartney III, átjánda plata Pauls McCartney kom út í fyrra og fékk prýðilega dóma víðast hvar. Undanfarið hefur Bítillinn verið að dunda sér með vinum sínum við að gera endurhljóðblandaða útgáfu af gripnum sem heitir McCartney III Imagined. Vinirnir sem leika við Paul á plötunni eru ekki af lakari sortinni en það eru þau Beck, St. Vincent, Ed O'Brien (Radiohead), Phoebe Bridgers, Josh Homme, Damon Albarn, 3D (Massive Attack), Anderson Paak, Blood Orange og Khruangbin.


St. Vincent – The Melting Of The Sun

Annað útgefna lagið af Daddys Home, væntanlegri sjöttu plötu St. Vincent, er sækadelíuslagarinn The Melting Of The Sun sem kom út í byrjun mánaðarins. Upphaflega planið hjá tónlistarkonunni var að búa til mjög þunga plötu í stíl við Tool til að fylgja eftir velgengni Masseducation en hún hætti við í miðju ferlinu þar sem hún komst að því að það var ekki alveg hennar karakter.


Polo G – Rapstar

Topplag bandaríska listans Billboard Hot 100 þessa dagana er með rapparanum Polo G, heitir Rapstar og er tekið af væntanlegri þriðju plötu hans, Hall of Fame. Í laginu fer Polo G yfir helstu kosti og galla sem fylgja frægð og frama eins og eiturlyf, byssur, bíla, eimanaleika, morð, gellur og gullkeðjur á melódískan og hressandi hátt.


Fimman á Spotify