
Enn hefur ekki fengist staðfest að skjalið sé til, en hátt settir embættismenn hafa þó látið í sér heyra vegna þess sem sagt er lagt til í skjalinu. Þar er að sögn Al Jazeera fréttastofunnar mælst til þess að Bosníu verði skipt í þrennt. Þannig verði Serbneska lýðveldið, sem að mestu er byggt Serbum, fært í hendur Serba, og þau héruð þar sem meirihluti íbúa er af króatískum ættum verði færð undir stjórn Króatíu. Í staðinn eru Serbar tilbúnir að samþykkja að Kósóvó sameinist Albaníu, er sagt að standi í skjalinu.
Óttast stríðsátök
Ekkert nafn er ritað undir skjalið og það er ekki skrifað á opinberan pappír. Því er alls óljóst hvort skjalið er raunverulegt eða ekki. Bisera Turkovic, utanríkisráðherra Bosníu, er þó ómyrkur í máli í samtali við Al Jazeera þar sem hann segir að ef farið verði út í að reyna að breyta landamærunum núna ætti það eftir að endurvekja átökin sem urðu undir lok síðustu aldar. Hann segist ekki trúa því að nokkur með réttu ráði í Evrópusambandinu taki þessar hugmyndir alvarlega. „Allir verða að skilja að þeir sem líta á þetta sem möguleika eru að ýta undir stefnu sem bar ábyrgð á þjóðarmorðinu, og verstu stríðsglæpum síðan í síðari heimsstyrjöldinni," hefur Al Jazeera eftir Turkovic.
Misvísandi viðbrögð við tilvist skjalsins
Fyrstu fregnir af skjalinu bárust 12. apríl á bosnísku fréttasíðunni politicki.ba. Slóvensk stjórnvöld segja skjalið ekki frá sér komið, Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, kveðst hafa séð sambærilegt skjal, en serbneski forsetinni Aleksandar Vucic neitar tilvist þess. Í frétt politicki.ba er sagt að það verði eitt forgangsmála Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu, að breyta landamærum ríkja fyrrverandi Júgóslavíu þegar Slóvenía tekur við forsæti í Evrópusambandinu 1. júlí.
Vefmiðillinn kveðst hafa heimildir frá Ljubljana og Brussel um að skjalinu hafi verið komið til Charles Michel, forseta Leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í lok febrúar eða byrjun mars. Jansa þvertekur fyrir þessar fregnir á Twitter. Hann segist hafa hitt Michel síðast í fyrra, og því hafi verið erfitt fyrir hann að koma skjalinu til hans í febrúar eða mars. 15. apríl var skjalið svo birt í slóvenskum fjölmiðlum.
Eh, @eucopresident sem nazadnje srečal lani. Težko bi mu tako februarja ali marca letos karkoli fizično predal, kot piše obskurni splet, ki ga navajate. sicer resno išče rešitve za razvoj regije in EU perspektivo držav ZB, s takimi zapisi pa se ravno ta cilj skuša onemogočiti. https://t.co/aObQNCkRc5
— Janez Janša (@JJansaSDS) April 12, 2021
Herjað var á Bosníu úr báðum áttum frá árinu 1992 til 1995 þegar Serbar og Króatar vildu ná völdum hvort í sínum hluta landsins. Stríðið náði algjörum lágpunkti í þjóðarmorðunum í Srebrenica, mestu stríðshörmungum í Evrópu síðan í helförinni. Stríðinu lauk með undirritun Dayton friðarsamkomulagsins í desember 1995.
Þá var Bosníu skipt í tvö ríkjasambönd, annars vegar Serbneska lýðveldið, sem er rauðleitt á kortinu hér að ofan, og hins vegar ríkjasamband Bosníumanna og Bosníu-Króata. Jafnframt eru þrír forsetar í landinu, einn Serbi, einn Króati og einn Bosníumaður. Milorad Dodik, fulltrúi Serba í forsetaembættinu, hefur lengi talað fyrir aðskilnaði ríkjasambandanna. Fulltrúar Bosníumanna og Króata segja hins vegar að hver sá sem hvetur til þess að skipta upp landinu ýti því í átt til stríðsátaka.