Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dularfullt skjal sagt ógna friði á Balkanskaga

23.04.2021 - 04:45
epa04766960 (FILE) A file picture dated 11 July 2009 shows visitors reading the names of Bosnian Muslims who were killed in the 1995 Srebrenica massacre on a memorial plaque at the cemetery where 534 newly-identified Bosnian Muslims were to be buried,
 Mynd: EPA - EPA FILE
Embættismenn á Balkanskaga eru uggandi vegna skjals sem sagt er komið á borð Evrópusambandsins. Í skjalinu er mælt með því að Bosníu og Hersegóvínu verði skipt upp. 

Enn hefur ekki fengist staðfest að skjalið sé til, en hátt settir embættismenn hafa þó látið í sér heyra vegna þess sem sagt er lagt til í skjalinu. Þar er að sögn Al Jazeera fréttastofunnar mælst til þess að Bosníu verði skipt í þrennt. Þannig verði Serbneska lýðveldið, sem að mestu er byggt Serbum, fært í hendur Serba, og þau héruð þar sem meirihluti íbúa er af króatískum ættum verði færð undir stjórn Króatíu. Í staðinn eru Serbar tilbúnir að samþykkja að Kósóvó sameinist Albaníu, er sagt að standi í skjalinu.

Óttast stríðsátök 

Ekkert nafn er ritað undir skjalið og það er ekki skrifað á opinberan pappír. Því er alls óljóst hvort skjalið er raunverulegt eða ekki. Bisera Turkovic, utanríkisráðherra Bosníu, er þó ómyrkur í máli í samtali við Al Jazeera þar sem hann segir að ef farið verði út í að reyna að breyta landamærunum núna ætti það eftir að endurvekja átökin sem urðu undir lok síðustu aldar. Hann segist ekki trúa því að nokkur með réttu ráði í Evrópusambandinu taki þessar hugmyndir alvarlega. „Allir verða að skilja að þeir sem líta á þetta sem möguleika eru að ýta undir stefnu sem bar ábyrgð á þjóðarmorðinu, og verstu stríðsglæpum síðan í síðari heimsstyrjöldinni," hefur Al Jazeera eftir Turkovic.

Misvísandi viðbrögð við tilvist skjalsins

Fyrstu fregnir af skjalinu bárust 12. apríl á bosnísku fréttasíðunni politicki.ba. Slóvensk stjórnvöld segja skjalið ekki frá sér komið, Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, kveðst hafa séð sambærilegt skjal, en serbneski forsetinni Aleksandar Vucic neitar tilvist þess. Í frétt politicki.ba er sagt að það verði eitt forgangsmála Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu, að breyta landamærum ríkja fyrrverandi Júgóslavíu þegar Slóvenía tekur við forsæti í Evrópusambandinu 1. júlí.

Vefmiðillinn kveðst hafa heimildir frá Ljubljana og Brussel um að skjalinu hafi verið komið til Charles Michel, forseta Leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í lok febrúar eða byrjun mars. Jansa þvertekur fyrir þessar fregnir á Twitter. Hann segist hafa hitt Michel síðast í fyrra, og því hafi verið erfitt fyrir hann að koma skjalinu til hans í febrúar eða mars. 15. apríl var skjalið svo birt í slóvenskum fjölmiðlum. 

Herjað var á Bosníu úr báðum áttum frá árinu 1992 til 1995 þegar Serbar og Króatar vildu ná völdum hvort í sínum hluta landsins. Stríðið náði algjörum lágpunkti í þjóðarmorðunum í Srebrenica, mestu stríðshörmungum í Evrópu síðan í helförinni. Stríðinu lauk með undirritun Dayton friðarsamkomulagsins í desember 1995.

Þá var Bosníu skipt í tvö ríkjasambönd, annars vegar Serbneska lýðveldið, sem er rauðleitt á kortinu hér að ofan, og hins vegar ríkjasamband Bosníumanna og Bosníu-Króata. Jafnframt eru þrír forsetar í landinu, einn Serbi, einn Króati og einn Bosníumaður. Milorad Dodik, fulltrúi Serba í forsetaembættinu, hefur lengi talað fyrir aðskilnaði ríkjasambandanna. Fulltrúar Bosníumanna og Króata segja hins vegar að hver sá sem hvetur til þess að skipta upp landinu ýti því í átt til stríðsátaka. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV