Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brottvísun Sýrlendinga mótmælt í Danmörku

23.04.2021 - 19:43
Mynd: Skjáskot úr myndbandi DR / Skjáskot úr myndbandi DR
Mótmælt var við danska þingið í vikunni vegna vísunar hið minnsta tvö hundruð Sýrlendinga úr landi. Dönsk stjórnvöld ógilda dvalarleyfi fólksins á þeim forsendum að öruggt sé að snúa aftur til Sýrlands.

Sú stefna var tekin upp í Danmörku í fyrra að ógilda dvalarleyfi fólks á flótta ef talið er að ástandið í heimalandinu hafi batnað. Þetta varð til þess að mál 500 Sýrlendinga voru endurskoðuð. Dönsk yfirvöld telja að í næsta nágrenni við borgina Damaskus sé öruggt að búa. Um 200 Sýrlendingar hafa fengið tilkynningu um að dvalarleyfi þeirra gildi ekki lengur í Danmörku og var mótmælt vegna þessa við danska þingið í vikunni.

„Hér sjáið þið stjórnmálamenn taka upp stefnu öfgahægriflokka gegn flóttafólki, múslimum og minnihlutahópum. Þið verðið hér vitni að rasisma,“ segir Sikandar Siddique, þingmaður Sjálfstæða græningjaflokksins á danska þinginu. 

Í Sýrlandi hefur geisað stríð síðan árið 2011 og er talið að allt að 600.000 manns hafi fallið og að um tólf milljónir, eða hálf þjóðin, hafi neyðst til að leggja á flótta. Ein þeirra er hin tuttugu og fimm ára gamla Faeza Satouf, sem flúði til Danmerkur árið 2015. Hún hefur síðan lokið stúdentsprófi, er í hjúkrunarfræðinámi og vinnur í matvöruverslun. Hún óttast um öryggi sitt í Sýrlandi verði hún send þangað 30. apríl, líkt og stendur til. Henni var brugðið þegar hún fékk þau tíðindi að dvalarleyfið yrði ekki framlengt. „Þegar ég las tilkynninguna varð ég leið og miður mín því það var mjög erfitt að koma undir mig fótunum í Danmörku og skyndilega var öllu lokið. Þá spurði ég sjálfa mig: „Hvers vegna vilja þau stöðva líf mitt hér í Danmörku?" segir hún.

Ekkert annað ríki í Evrópu skilgreinir svæði í Sýrlandi sem örugg. Fólki frá Sýrlandi er haldið í búðum í um 300 kílómetra fjarlægð frá Kaupmannahöfn, frá því að dvalarleyfið er ógilt, þar til það fer úr landi. „Markmið okkar er ekki að þau búi í þessum miðstöðvum í langan tíma. Takmarkið er að fólkið fari heim og geti lagt sitt af mörkum í heimalandinu og nýtt sér þá hæfni og menntun sem það aflaði sér í Danmörku,“ segir Rasmus Storklund, þingmaður Sósíaldemókrata, en hann einnig sæti í nefnd um innflytjendamál á danska þinginu.