Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákveður refsingu yfir Chauvin þann 16. júní

23.04.2021 - 23:08
epa09105715 Protesters march through downtown Minneapolis on the first day of opening statements for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin who was charged in the death of George Floyd, in Minneapolis, Minnesota, USA, 29 March 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: epa
Dómari í máli Derek Chauvin, sem var sakfelldur fyrir morðið á George Floyd í vikunni, ákveður refsingu yfir honum þann 16. júní. Dómurinn tilkynnti þetta í kvöld. Chauvin gæti verið dæmdur í 40 ára fangelsi. Kviðdómur taldi hann sekan um alla þrjá ákæruliðina í málinu en Chauvin þrýsti hné sínu að hálsi Floyds í 9 mínútur og 29 sekúndur.

Örlög Floyds urðu kveikjan að fjölmennum mótmælum víða um Bandaríkin en hann var handtekinn vegna gruns um að hafa framvísað fölsuðum 20 dollara seðli.  

„Við þurftum sigur í þessu máli og hann er okkur mjög mikilvægur. Nú fáum við kannski smá andrými,“ hefur AFP eftir Rodney Floyd, bróður George Floyd.

Chauvin var rekinn úr lögreglunni og síðar ákærður fyrir annarrar gráðu morð, og til vara fyrir morð af þriðju gráðu og manndráp. Niðurstaða kviðdómsins var söguleg því þetta var í fyrsta skipti í sögu Minnesota sem lögreglumaður var sakfelldur vegna andláts blökkumanns í haldi lögreglu.

Á meðan réttarhöldunum yfir Chauvin stóð var hin tvítuga blökkukona Daunte Wright skotin til bana af lögreglumönnum í Minneapolis. Í framhaldinu tilkynnti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna að rannsókn yrði hafin á því hvort kerfisbundin misnotkun valds hefði fengið að viðgangast innan lögreglunnar í borginni.

Chauvin gekk laus gegn tryggingu á meðan réttarhöldunum stóð en var handtekinn um leið og sakfelling hans lá fyrir. Hann var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald og verður í fangelsi þar til refsing hans hefur verið ákveðin.

Réttarhöld eiga að hefjast síðar á þessu ári í máli þriggja annarra lögreglumanna sem eru ákærðir í tengslum við mál Floyds.