Staðan ekki ákjósanleg að mati Þórólfs

22.04.2021 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að megnið af þeim sem greindust í gær tengist fyrri hópsýkingum en tvö smit eru ótengd fyrri smitum við fyrstu sýn. Hann segir stöðu faraldursins innanlands ekki vera ákjósanlega. Hann kveðst vera klár á línunni með hertar aðgerðir, en telur ekki tímabært að leggja þær fram að svo stöddu.

Sautján greindust með veiruna innanlands í gær, af þeim voru átta utan sóttkvíar, sem er sami fjöldi og á laugardaginn var, en þá höfðu ekki greinst jafnmargir utan sóttkvíar síðan í nóvember.
Þórólfur segir að tvö smitanna sem greindust í gær virðast ekki tengjast fyrri smitum. Hann segir það vera til marks um að veiran sé úti í samfélaginu. Hann segir tölur dagsins vera ákveðin vonbrigði.

„Við vorum með 2 utan sóttkvíar í fyrradag og auðvitað var maður að vona að þetta myndi haldast þarna niðri. Það eru alltaf sveiflur á milli daga. Það var tekið mikið af sýnum í gær, um 2.000 sýni. Þetta sýnir að veiran er úti í samfélaginu. Það eru örugglega einhverjir sem eru með lítil sem engin einkenni sem eru að dreifa veirunni og geta smitað aðra, svo það geta komið upp hópsmit hér og þar,“ segir Þórólfur

Hann segir stöðuna ekki vera ákjósanlega eins og er. Fjöldi innanalandssmita sé ekki nógu góð.

„Það er bara spurningin hvort að það þurfi að grípa til harðari aðgerða til að stoppa það. Við erum með takmarkanir í gangi þó að við höfum aflétt fyrir viku síðan. Þessi smit sem við erum að greina núna urðu til þegar mjög harðar aðgerðir voru í gangi. Við þurfum að skoða þetta í því ljósi,“ segir Þórólfur. 

Hann segir frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnalögum sé framfaraskref og kveðst hann vera ánægðu með útkomuna. Hann býst við að skila minnisblaði til ráðherra varðandi landamæraaðgerðir síðar í dag. 

„Ég tel þetta vera framfaraspor og að þetta sé svar við því ákalli sem ég hef allavega haft um að við þurfum að geta beitt úrræðum þar sem við getum skikkað fólk í sóttkví þar sem við getum haft betra eftirlit með því. Ég held að þetta sé svar við því,“ segir Þórólfur.