Pútín varar við sterkum viðbrögðum

22.04.2021 - 00:53
Vladimír Pútín forseti Rússlands varaði við sterkum viðbrögðum ef farið yrði yfir ákveðin mörk í samskiptum við þjóð sína. Fangelsun stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny hefur verið mótmælt víða um Rússland í dag.

Það hefur gengið á ýmsu í samskiptum Rússlands og Vesturlanda undanfarnar vikur. Mesta spennan hefur verið um aukna herflutninga Rússa að landamærunum að Úkraínu. Forseti Rússlands gerði samskiptin að umtalsefni í árlegu ávarpi til þjóðarinnar í morgun og sagði Rússa vilja eiga góð samskipti við alþjóðasamfélagið. Rússar myndu bregðast hratt við ef þeir teldu öryggi sínu ógnað.

Flokksleiðtogar lýstu yfir stuðningi, þar á með frjálslyndi lýðræðisflokkurinn sem sendi Úkraínustjórn skilaboð.

En varðhald og heilsufar stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny er líka í brennidepli. Mótmæli voru boðuð víða um Rússland í dag án leyfis stjórnvalda. Töluverður viðbúnaður hefur verið hjá lögreglu og nokkur hundruð manns hafa þegar verið handteknir, þeirra á meðal náinn bandamaður Navalnys.