Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óskarsverðlaunin verða í beinni útsendingu

Mikil stemning er á Húsavík vegna Óskarsverðlaunahátíðarinnar.
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV

Óskarsverðlaunin verða í beinni útsendingu

22.04.2021 - 15:03

Höfundar

Samningar hafa náðst um að RÚV sýni verðlaunaafhendingu Óskarsverðlaunanna í beinni útsendingu á sunnudag. Fyrri samningur um útsendingarrétt var útrunninn og lengi leit út fyrir að ekki yrði sýnt beint frá hátíðinni. Eftir að í ljós kom að óvenju mikil Íslandstenging yrði á Óskarsverðlaunahátíðinni í ár var leitað samninga um sýningu og hefur það nú tekist.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að tryggja útsendingarréttinn þegar ljóst varð hversu mikil Íslandstengingin yrði á þessari hátíð. „Við gerðum okkur grein fyrir því að það mun varla gerast oft að atriði á Óskarnum verði tekið upp á Íslandi, hvað þá flutt af íslenskum stúlknakór.“

„Þetta var töluverð vinna. Í rauninni hefur legið lengi fyrir að sá samningur sem hafði verið í gildi og var til þriggja ára var útrunnin, frá og með síðustu hátíð,“ segir Skarphéðinn. Hann segir að samningar um útsendingarréttinn séu umfangsmiklir og dýrir. Að auki séu þeir til lengri tíma. „Við vorum ekkert sérstaklega vongóð á að geta gengið frá því að tryggja réttinn á einni hátíð, sem þeir hafa ekki verið mjög opnir fyrir hingað til,“ segir Skarphéðinn. „Það gekk á endanum þegar við notuðum þetta tromp, að það væri þessi Íslandstenging. Þeir tóku mark á því.“

Íslenska teiknimyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson er tilnefnd í flokknum Besta stutta teiknimyndin. Eitt af atriðum hátíðarinnar var tekið upp á Íslandi, það er lagið Húsavík (My Hometown) sem tilnefnt er í flokknum Besta frumsamda lagið. Þar nýtur söngkonan Molly Sandén stuðnings stúlknakórs úr 5. bekk Borgarhólsskóla.

Óskarsverðlaunahátíðin eru seinna á ferð í dagatalinu en venja er til, vegna COVID-faraldursins. Það leiðir hins vegar til þess að hátíðin hefst klukkutíma fyrr um kvöldið. Hulda Geirsdóttir verður þulur eins og undanfarin ár.

Boðið verður upp á sérstaka samantekt með því helsta sem gerðist á hátíðinni á mánudagskvöldið að loknum Tíufréttum. Atriðið sem tekið var upp á Húsavík verður sýnt sérstaklega fyrr um kvöldið.

Leiðrétt 16:04 Nafn Borgarhólsskóla var rangt í upphaflegri gerð fréttarinnar.

Tengdar fréttir

Norðurland

Húsvíkingar vígðu rauðan dregil í anda Hollywood

Innlent

Upptökur á Húsavík í dag: „Þetta er bara lagið okkar“

Menningarefni

Mank fékk flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna

Kvikmyndir

Í skýjunum yfir tilnefningu til Óskarsverðlauna