Metfjöldi COVID-19 tilfella í Indlandi í gær

22.04.2021 - 06:46
epa09151910 A health worker checks the temperature of women queueing outside a polling station during the sixth phase of the 2021 West Bengal Legislative Assembly election at Kampa village, North of Kolkata, India, 22 April 2021. The ongoing election process is scheduled to end on 29 April 2021. India reported the world's highest single-day spike in COVID-19 cases, with more than 300,000 new infections.  EPA-EFE/PIYAL ADHIKARY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir þrjú hundruð þúsund kórónuveirusmit greindust í Indlandi síðasta sólarhring. Aldrei hafa fleiri smit greinst í einu og sama landinu á einum sólarhring frá því faraldurinn hófst. Alls voru smitin nærri 315 þúsund og hafa nú nærri 16 milljónir greinst með COVID-19 í landinu.

Yfir tvö þúsund dauðsföll voru skráð vegna sjúkdómsins síðasta sólarhring, og hafa nú nærri 185 þúsund dáið af völdum hans, hefur AFP fréttastofan eftir heilbrigðisyfirvöldum í Indlandi.

Sjúkrahús í Nýju Delhi hafa sent stjórnvöldum neyðarkall vegna skorts á súrefnisbirgðum. Um 500 tonnum af súrefni var komið til sjúkrahúsa í borginni í gær, en þörf er á 700 tonnum á dag að sögn yfirvalda. Í borginni Nashik í vestanverðu landinu dóu 22 COVID-sjúklingar á sjúkrahúsi eftir að leki varð í súrefniskút. Kúturinn var tengdur við öndunarvélar sjúkrahússins. Um 150 sjúklingar voru á spítalanum þegar lekinn varð, og var fjölda þeirra komið fyrir á öðrum sjúkrahúsum í borginni vegna atviksins. 

Bráðsmitandi stökkbreytingar og fjöldasamkomur eru tvær helstu ástæður mikillar fjölgunar smita í Indlandi undanfarnar vikur. Fjölmenn brúðkaup, Kumbh Mela trúarhátíðin, pólitískar samkomur og krikketleikir hafa valdið umfangsmiklum hópsmitum í landinu undanfarið.