Lofuðu aðgerðum gegn loftslagsvá

22.04.2021 - 15:40
epa09152598 President Joe Biden speaks during a virtual international Leaders Summit on Climate, in the East Room of the White House, in Washington, DC, USA, 22 April 2021. Biden announced plans to reduce the US gas emmission by 50 percent by the year 2030. The meeting is intended to underline the urgency and economic benefits of stronger climate action on the road to the United Nations Climate Change Conference (COP26) in Glasgow in November 2021. Around 40 international leaders attend the summit.  EPA-EFE/AL DRAGO / POOL MANDATORY CREDIT - AL DRAGO
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Bandaríkin ætla að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir 2030, sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti við upphaf alþjóðlegrar ráðstefnu um loftslagsmál. Þjóðarleiðtogar víða að lögðu áherslu á að mikilvægi þess að bregðast við loftslagsvánni og lofuðu aðgerðum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fagnaði því að Bandaríkin tækju aftur þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, lagði áherslu á að ríkari ríki veraldar aðstoðuðu þau efnaminni.

Bandaríkjaforseti hélt ráðstefnu með þjóðarleiðtogum víðs vegar að úr heiminum. Biden sagði að engin ein þjóð gæti leyst vandann, ráðamenn alls staðar, og sérstaklega í stærstu efnahagsveldum heims, yrðu að láta til sín taka. Hann baráttunni við loftslagsbreytingar sem tilvistarbaráttu mannkyns.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist hæstánægð með að Bandaríkjamenn væru á ný farnir að vinna með heiminum að loftslagsmálum. „Framundan er gríðarlegt verk, því þetta er ekkert annað en algjör umbreyting, algjör umsnúningur í því hvernig við höfum efnahagslífi okkar.“

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti þjóðir heims til að vinna saman og mestu mengunarvaldana til að kynna metnaðarfyllri leiðir á næstu tíu árum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Við þörfnumst grænnar plánetu en rauðu varúðarljósin loga, sagði Guterres. Hann sagði heiminn á barmi hyldýpis og nú þyrftu leiðtogar um allan heim að stefna í rétta átt í umhverfsimálum. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði að ekki þyrfti að velja á milli betra umhverfis og meiri hagvaxtar, fólk gæti bæði átt kökuna og borðað hana.

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, sagði að fátækari ríki heims hefðu losað minnst að gróðurhúsalofttegundum en yrðu einna verst úti af völdum afleiðinga loftslagsbreytinga. Hann lagði áherslu á að ríkari lönd þyrftu að standa með þeim fátækari og hjálpa þeim að aðlagast nýjum veruleika.

Xi Jinping, forseti Kína, sagði að umhverfisvæn þróun væri nauðsynleg fyrir framtíð. Hann sagði að með því að vernda umhverfið væri einnig verið að vernda framleiðni, með því að bæta umhverfið mætti auka framleiðni.