Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frumvarpið samþykkt eftir langan þingfund

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Frumvarp heilbrigðisráðherra um sóttvarnalög og lög um útlendinga var samþykkt á Alþingi um klukkan hálf fimm í nótt, með breytingartillögu fyrsta minnihluta velferðarnefndar.

Fjórir af fimm stjórnarþingmönnum í velferðarnefnd undirrituðu minnihlutaálitið. Í tillögunni eru breytingar á orðalagi, og að ráðherra fái umboð til að skilgreina hááhættusvæði að fenginni tillögu sóttvarnalæknis. Listinn yfir svæði og lönd sem talin eur sérstök hááhættusvæði skal sæta endurskoðun á tveggja vikna fresti hið minnsta.

Frumvarpið var samþykkt með 28 atkvæðum. Tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, þar á meðal stjórnarþingkonan Sigríður Á. Andersen. 22 þingmenn sátu hjá og 11 voru fjarverandi.

Heilbrigðisráðherra hefur nú heimild í lögum, frá og með deginum í dag til 30. júní á þessu ári, til þess að skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum. Það verður ferðamaðurinn þó að sækja um minnst tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins.

Ekki er tekið sérstaklega fram hvert 14 daga nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa þarf að vera til þess að svæði séu skilgreind sem hááhættusvæði. Í greinargerð breytingartillögu fyrsta minnihluta velferðarnefndir segir aðeins að „t.d. mætti miða hááhættusvæði við nýgengi upp á 750.“