Enn varað við kortasvikum

22.04.2021 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn
Valitor hefur sent frá sér viðvörun um að svindlarar séu að reyna að hafa fé af fólki með tölvupóstum og smáskilaboðum í nafni DHL og Póstsins. Fjöldi fólks hefur fengið slík skilaboð þar sem segir að pakki sé á leiðinni og að það þurfi að greiða lága fjárhæð fyrir móttöku. Með því reyna svindlararnir að hafa miklu hærri fjárhæðir af þeim, jafnvel upp í hundrað þúsund krónur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Valitor varar við slíkum fjársvikum. Fyrirtækið biður fólk að opna ekki hlekki sem fylgja skilaboðunum og gefa alls ekki upp korta- eða persónuupplýsingar. Þau sem hafa gefið upp slíkar upplýsingar hafa fengið öryggiskóða til að klára greiðsluna en Valitor segir mikilvægt að gefa hann alls ekki upp. Skilaboðunum með öryggiskóðanum fylgja ítarlegar upplýsingar um það sem korthafi er að samþykkja og því mikilvægt að lesa þau mjög vel, athuga upphæð og gjaldmiðil og áframsenda kóðann ekki að óathuguðu ráði. Fyrirtækið segir dæmi um að korthafar hafi tapað háum fjárhæðum vegna svika af þessum toga.

Lögregla hefur einnig ítrekað varað við margvíslegum tilraunum til að hafa fé af fólki með álíka skilaboðum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV