„Dönum finnst Íslendingar ekkert töff“

Mynd: Einkasafn/Kona fer í stríð / Aðsent

„Dönum finnst Íslendingar ekkert töff“

22.04.2021 - 09:17

Höfundar

„Það er svo gaman við Dani að þeim finnst við ekkert exótísk og finnst Íslendingar ekkert töff. Þeir vita varla af því að þeir hafi átt þetta. Það er svo skemmtilegt og hollt fyrir okkur stundum,“ segir Benedikt Erlingsson leikstjóri sem vinnur að sjónvarpsþáttum um danska konu sem flytur til Íslands og er staðráðin í að ala Íslendinga upp að dönskum sið.

Benedikt Erlingsson leikstjóri hefur sannarlega verið iðinn við kolann síðustu ár, er alltaf með mörg járn í eldinum og marga bolta á lofti en segist þó eins og aðrir stundum þurfa að hafa fyrir því að fá hugmyndir. „Það er hægt að setjast bara fyrir niður og ákveða að fá hugmynd. Þetta heitir að maður dregur sig inn í hellinn. Að hreyfa halann eins og sæðisfruma, hún hættir ekki að hreyfa halann sama hvað kemur fyrir hana.“ Benedikt var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá uppvextinum, leikstjóralífinu, nýjum þáttum sem hann leikstýrir og leiksýningunni Nashyrningarnir sem frumsýnd verður eftir töluverða bið á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu í kvöld.

Til í hlutverk fyrir lítinn tíma og mikinn pening

Benedikt hefur átt glæstan feril sem leikari og fetað í fótspor föður síns, Erlings Gíslasonar stórleikara. Í seinni tíð hefur hann þó frekar fundið sig í hlutverki leikstjórans og á  ekki langt að sækja þá hæfileika því móðir hans, Brynja Benediktsdóttir, var á meðal fremstu leikstjóra sinnar kynslóðar. Hann kveðst nokkurn veginn hættur að leika en útilokar þó ekki að taka að sér hlutverk fyrir réttan pening og stuttan tíma. „Ef þú borgar mér peninga og það tekur ekki nema einn eða tvo daga þá er ég alveg til í það og nenni þessu, en ég nenni ekki að hanga yfir þessu lengi,“ segir Benedikt sem lýsir leikhúsinu sem hálfgerðri þrælakistu fyrir leikara. „Það er svo bindandi og svo mikil orka sem fer í það.

Þurfum hvorki ljós né leikstjóra

Benedikt ber þó ómælda virðingu fyrir starfi leikarans enda kveðst hann alinn upp við hana. „Pabbi innprentaði þetta alltaf, þetta var alltaf æðsta starfsheiti hússins og allir aðrir þjónar hans,“ rifjar Benedikt upp og vitnar í föður sinn: „Við þurfum ekki leikstjóra, ekki leikhússtjóra og ekki einu sinni ljós. Við getum leikið í myrkri og þá heitir það útvarpsleikhús.“

Ástríða hjónanna Erlings og Brynju fyrir leiklistinni var mikil en ólík. Föður sínum lýsir Benedikt sem Brecht-ista fyrstu árin en móðir hans var innblásin af látbragðsleikhúsi Jacques Lecoq. „Það voru tveir straumar í þessu hjá þeim en þau báru virðingu fyrir hvort öðru. Þau voru mjög ólík að þessu leyti en þau tókust ekkert á um þetta.“

„Giftingin var redding til að bjarga andlitinu“

Benedikt er eina barnið sem foreldrar hans eiga saman en hann á tvo hálfbræður. Foreldrar hans kynntust í leikhúsinu og giftu sig þegar hann kom undir. „Giftingin var redding til að bjarga andlitinu, mamma var orðin ólétt þannig að ég hefði auðvitað verið til í synd og skömm,“ segir leikstjórinn sposkur. „Í febrúar láta þau pússa sig saman og ég fæðist í maí. Þett var gert fyrir ömmu Kristínu var mér sagt.“

Bræður Benedikts, Guðjón og Friðrik, átti faðir hans úr fyrra hjónabandi. Hann var stóran hluta æsku sinnar litli prinsinn á heimilinu og segir að það hafi háð sér alla tíð. Hann átti þó hálfgerða uppeldissystur í dóttur fóstru sinnar Ásdísar Benediktsdóttur. „Mamma var ástrík í leikhúsinu og ég var svona eins og Suðurríkjayfirstéttarkrógi með nanny,“ segir Benedikt. „Hún eignaðist Regínu sem var eins og systir mín.“

Hann átti líka tvö sett af ömmum og öfum sem dekruðu litla prinsinn. „Ég get eiginlega ekki komist hjá því að vita að ég hafi verið elskaður. Ég get séð það á gömlum ljósmyndum og kvikmyndum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjónin Brynja Benediktsdóttir og Erlingur Gíslason léku saman í sjónvarpsmyndinni Baráttusætið.

Skemmtilegt barn en leiðinlegur unglingur

Ekki var Benedikt baldinn í æsku heldur lýsir hann sér sem skemmtilegu og þægilegu barni en leiðinlegum unglingi. Einhverjir í kringum hann kváðust sammála því. „Það var dómurinn sem ég fékk. Ég skildi svolítið við foreldra mína upp úr tólf þrettán ára aldri, þá fannst mér ég búinn að fá nóg af þessari sambúð og vildi mikið fara í sveit.“ Í þrjú sumur fékk hann að vera vinnumaður í Möðrudal.

Hann naut sín vel í sveitinni þótt hann sé mikið borgarbarn, alinn upp í Þingholtunum í nágrenni við krakka sem enn eru vinir hans í dag

Karlarnir gátu ekki annað gert en að hleypa henni á svið

Brynja Benediktsdóttir, móðir Benedikts, hafði mikil áhrif á listalífið. Á þeim tíma sem hún fær fastráðningu hjá leikhúsinu var fátítt að konur settust í leikstjórastólinn. „Það hafði konu verið hleypt þarna áður í einstakt verkefni en hún brýst þarna á sviðið og er leikstjóri í þrjátíu ár.“ Hún hafði getið sér gott orð í hlutverkinu, setti Lýsiströtu á svið í menntaskóla 1970 og söngleikinn Hárið 1971 við frábærar undirtektir. „Í framhaldi af þessu geta þessir karlar ekki annað gert en að hleypa henni á svið,“ segir Benedikt.

Yfirmaður á vinnustaðnum en sá um heimilsverkin

Tíðarandinn var sérstakur á þessum tíma og konur kröfðust í síauknum mæli úrbóta. En þrátt fyrir velgengni Brynju var hún alla tíð á lægri launum en fastráðnir leikarar og leikstjórar. Og þó að Brynja sem leikstjóri væri yfirmaður Erlings og verkstjóri í leikhúsinu, og hann hlýðinn henni í því hlutverki eins og aðrir leikarar, segir Benedikt að heima við hafi verkaskiptingin verið aðeins óréttlát.

Benedikt hefur skrifað kvikmyndahandrit um þennan tíma sem hann kallar Kvennafrí og fjallar um konurnar sem börðust fyrir ytri viðurkenningu á jafnrétti, svo sem sömu laun fyrir sömu vinnu, á sama tíma og slagurinn á heimilinu átti langt í land.„Þær geta eiginlega ekki tekið hann þannig að þær eru með heimilið og misskiptinguna þar margar hverjar en eru að berjast fyrir jafnréttinu inni í samfélaginu,“ segir Benedikt.

„Tólf ára stelpur þurfa mest á pabba sínum að halda“

Fyrir rúmum tuttugu árum gekk Benedikt að eiga Charlotte Bøving leikkonu en þau skildu fyrir tveimur árum. Nú býr Charlotte í Danmörku ásamt yngstu dætrum þeirra tveimur. Benedikt hefur því ákveðið að vera með annan fótinn þar til að geta verið með dætrunum. „Tólf ára gamlar stelpur þurfa mest á pabba sínum að halda,“ segir Benedikt en minnist þess hve fráhverfur hann varð foreldrum sínum á svipuðum aldri. „Þær eru aðeins að missa áhugann á mér finnst mér núna. Þær eru tólf, þrettán ára og maður þarf að halda sér við efnið.“

Gekk ekki að fá Charlotte til að leika dönsku konuna

Um hríð hefur Benedikt verið með í vinnslu þætti sem nefnast Danska konan og fjalla um danska konu sem er alveg brjáluð, „en þetta er ekki um hjónaband okkar Lottu,“ segir hann. Hugmyndin þróaðist í samstarfi við Charlotte og draumurinn var að fá hana til að leika. „En það gekk ekki upp á endanum og ég skil það mjög vel,“ segir hann.

Danska konan í þáttunum flytur til Íslands og ákveður að lyfta samfélaginu upp á danskan standard, enda þykir henni ekki veita af. „Það þarf að kenna þessum Íslendingum ýmislegt sem þeir kunna ekki, eins og að taka ábyrgð á lífi sínu og lifa í sambýli við annað fólk, fara eftir reglum, taka til eftir sig og svo framvegis. Þannig að þetta er mikil ofbeldissaga um þessa konu sem svífst einskis. Tilgangurinn helgar meðalið,“ segir hann um lífssýn konunnar. „Hún brýtur á bak aftur þetta samfélag og kúgar alla til að hegða sér eins og almennilegt fólk á að gera.“

Danir suðrænastir Norðurlandabúa

Íslendingar eiga Dönum mikið að þakka samkvæmt Benedikt sem segir að Danir hafi af einhverju leyti fært okkur siðmenninguna. Þeir séu suðrænastir af Norðurlandabúum og hafi minnstan áhuga á Norðurlandasamstarfi, „og minnstar tengingar við þetta Norðurlandakjaftæði og norræna arfinn. Þeir eru svolítið ligeglad með allt það. Við erum náttúrulega litli prinsinn með okkar miðaldamenningu og erum að miðla því.“

Danir horfi frekar til Þýskalands og Frakklands til að bera sig saman við á meðan Íslendingum, Svíum og Norðmönnum þyki flott að vera norræn. Og þyki við Íslendingar ekkert rosalega aðdáunarverðir. „Það er svo gaman við Dani að þeim finnst við ekkert exótísk og finnst Íslendingar ekkert töff. Þeir vita varla af því að þeir hafi átt þetta. Það er svo skemmtilegt fyrir okkur og hollt fyrir okkur stundum.“

Benedikt ítrekar að hann dáist að Dönum og það sé margt frábært við dönsku þjóðarsálina, eins og kristallist í karakter dönsku konunnar í þáttunum. „Hún er umburðarlynd eins og Brandes, eldheit Grundtvig og hefur Kierkegaard alveg á heilanum.“

Danska stórleikkonan Trine Dyrholm kemur til með að túlka dönsku konuna í staðinn fyrir Charlotte. „Lotta sagði nei takk og þá hringdi ég bara í Trine.“ Hún lék meðal annars í kvikmyndinni Dronningen, umdeildri mynd sem margir Íslendingar þekkja. „Hún þarf náttúrulega að læra svolitla íslensku, danska konan talar auðvitað sína íslensku,“ segir Benedikt kíminn.

Samsæri ríkisstjórnarinnar að koma annarri sýningu að á undan

Á morgun verða Nashyrningarnir loksins frumsýndir í Þjóðleikhúsinu en henni hefur þurft að fresta fjórum sinnum. Í millitíðinni hefur sýningin Vertu úlfur í leikstjórn Unnar Aspar verið sett á svið en hún er byggð á sjálfsævisögulegri bók Héðins Unnsteinssonar sem starfar sem stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu.

„Það er önnur sýning sem hefur fengið að malla og skaust fram fyrir okkur, eftir starfsmann forsætisráðuneytis, og ég held þetta sé allt saman samsæri. Forsætisráðuneytið er alltaf að hreinsa sviðið, banna leiklist reglulega og leyfa með takmörkunum svo að Vertu úlfur geti rakað inn,“ segir hann og skellihlær. „Það er nota bene frábær sýning.“

Nashyrningarnir eru eftir rúmenska leikskáldið Eugéne Ionesco. Leikritið var frumsýnt árið 1959 og sýnt skömmu síðar á Íslandi. Það fjallar um hjarðhegðun og eilífa baráttu mennskunnar við að lifa af. Hversdagslegt líf í litlum bæ umturnast þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga hver af öðrum.

Þykir vænt um að fólk rifji upp minningar um foreldrana

Sem leikstjóri á Benedikt gjarnan samtal við móður sína í huganum og finnst hann verða æ líkari henni. Brynja lést aðeins sjötug að aldri árið 2008. Benedikt þykir vænt um þegar fólk minnist hennar við hann og líkir þeim saman. „Ég hef verið svo gæfusamur að það eiga margir mjög góðar minningar um hana, og ég fæ stundum á óvæntum tíma sendingar, fólk sem minnist á þau,“ segir hann og vísar þá í foreldra sína báða.

Erlingur lést 2016 en síðasta verkefni hans var upplestur á Illionskviðu fyrir Ríkisútvarpið. Til stóð að hann læsi einnig Ódysseifskviðu en hann lést frá því verki, „svo ég þurfti að klára þetta,“ segir Benedikt sem kveðst ekki eins góður upplesari og faðir hans.

Hann er orðinn spenntur fyrir frumsýningunni sem vonandi verður loksins af í kvöld í Þjóðleikhúsinu og ætlar að mæta á hana í bláum fötum, enda skilst honum að blátt fari sér vel.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Benedikt Erlingsson í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Fólk var líka svo þakklátt að sjá Ingvar“

Kvikmyndir

„Hvað er að Dönum eiginlega?“

Kvikmyndir

Kona fer í stríð ein af bestu myndum ársins