Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bilaður bátur á reki í Kollafirði

22.04.2021 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Slökkviliðið á höfuðborgar - RÚV
Björgunarsveitir og viðbragðsaðilar voru kallaðar út nú á sjötta tímanum vegna báts sem missti vélarafl í Kollafirði. Báturinn er kominn upp í fjöru en ekki er vitað til þess að fólk hafi slasast.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar eru viðbragðsaðilar enn á leið á vettvang ásamt björgunarsveitarmönnum.  Hann segir að þetta sé einhvers konar skemmtibátur en ekki er vitað hversu margir eru um borð í bátnum. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki, en báturinn er kominn langleiðina upp í fjöru að sögn Davíðs.

Uppfært 18:35: Björgunarsveitarfólk frá Kjalarnesi og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins eru komin á staðinn og björgunarbátar eru komnir að bátnum. 3 voru um borð í bátnum og er búið að setja 2 þeirra í land. Stefnt er að því að koma bátnum á flot, en hann skorðaðist í fjörunni nærri Saltvík að sögn Davíðs Más.  Fólkið var ekki sagt vera í hættu og björgunarsveitarfólk ætar að freista þess að koma bátnum á flot og til hafnar. 

Uppfært 21:20: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var ennig gæludýr um borð. Allir komust heilir frá borði og báturinn komst til hafnar. Allt er gott sem endar vel. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV