Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skipulagði samtímis jarðarför og 100 ára afmæli

Mynd: Jón Bjarki Magnússon / Hálfur álfur

Skipulagði samtímis jarðarför og 100 ára afmæli

21.04.2021 - 15:46

Höfundar

„Þetta var eiginlega síðasti séns til að gera það sem mig langaði til þess að gera,“ segir Jón Bjarki Magnússon, leikstjóri og framleiðandi myndarinnar Hálfur Álfur.

Jón Bjarki fylgdi afa sínum og ömmu eftir um langt skeið og skrásetur tilveru þeirra í heimildarmyndinni. „Hálfur Álfur fjallar um 99 ára gamlan vitavörð sem undirbýr eigin jarðarför eða 100 ára afmæli. Myndin fjallar líka um eiginkonu hans og þeirra samband. Það vill svo til að þau voru afi minn og amma, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Hulda Jónsdóttir. Afi var sem sagt 99 ára gamall þegar tökur voru að hefjast og amma 96 ára.“ 

Hluti af heimilislífinu

Hálfur Álfur hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðar á síðasta ári, en myndin er fyrsta kvikmynd Jóns Bjarka í fullri lengd. Hlín Ólafsdóttir er framleiðandi myndarinnar auk Jóns og hún semur einnig tónlistina. Þá eiga Teitur Magnússon og Sindri Freyr Steinsson tvö lög í myndinni. Veronica Janatkóva og Andy Lawrence eru meðframleiðendur myndarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV
Jón Bjarki Magnússon.

Aðspurður segir Jón hafa verið vissa áskorun að finna jafnvægi milli hlutverka kvikmyndagerðarmanns og aðstandanda. „Þetta gat alveg verið flókið á tímum, auðvitað. Maður er barnabarn og aðstandandi líka, sérstaklega þegar afi veikist þegar líður á þá koma svona tímabil þar sem maður þurfti í rauninni bara að leggja frá sér myndavélina og vera barnabarnið og aðstandandinn sem maður var. Ég beitti svolítið aðferðafræði mannfræðinnar því ég var að gera þetta sem lokaverkefni í sjónrænni mannfræði í Berlín. Þannig að það  fólst svolítið mikið í því að vera með þeim í lengri tíma. Vera með þeim meðan þau voru að stússast í hversdagslegum hlutum, sitja við eldhúsborðið og jafnvel enda á því að karpa um gildi bóka og steina. Þá kom sér vel að vera búinn að vera hjá þeim lengi og oft þannig að þau voru farin að venjast vélinni. Ég varð einhvern veginn hluti af heimilislífinu sem var ábyggilega á stundum pirrandi. Ég held að ömmu hafi þótt þetta meira þreytandi en afa, hann hafði mjög gaman af vélinni og þótti þetta æðisleg hugmynd,“ segir hann.

Kapphlaup við tímann

Jón Bjarki lagði eðli máls samkvæmt upp í verkefnið án þess að endir þess væri í skýru sjónmáli. „Ég var auðvitað meðvitaður um að þetta var eiginlega síðasti séns til að gera það sem mig langaði til þess að gera. Og ég vissi í raun og veru að ég væri að ganga inn í svolítið mikla óvissu. Ég var til dæmis að taka upp á þessu svæði og er þá bara að taka síðustu stundir gamla, afi var að ganga hérna og ég í rauninni var að taka síðasta göngutúrinn áður en hann dettur stuttu síðar og svo framvegis. Maður var í raun alltaf í svolitlu kapphlaupi við tímann og þurfti að vinna í rauninni bara með þá óvissu og þróun,“ segir Jón Bjarki. 

Hálfur Álfur bíður enn almennra sýninga, sem teknar verða upp um leið og aðstæður leyfa. Nánari upplýsingar má finna hér. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Álfurinn var verndari afa um alla tíð“

Kvikmyndir

Hálfur álfur valin í aðalkeppni virtrar hátíðar

Kvikmyndir

Hálfur álfur og Er ást verðlaunaðar á Skjaldborg