Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir ýmsum spurningum ósvarað um landamæraaðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, telur ýmsum spurningum enn ósvarað um þær landamæraaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Frumvarp sem er ætlað að renna lagastoðum undir fyrirhugaðar aðgerðir er nú til umræðu á Alþingi.

Halldóra sagði á Alþingi í dag að Píratar teldu framkvæmd sóttvarnahótela óljósa á þessu stigi. „Og mun ég beita mér fyrir því að hún verði gerð skýrari þannig að frumvarpið nái tilsettum árangri og að ríkisstjórnin verði ekki aftur gerð afturreka fyrir dómstólum,“ sagði hún. Hún nefndi að undanþáguheimildir  væru óskýrar og eins hvað teldust ónauðsynlegar ferðir. 

Setur spurningamerki við áhættumat

Þá nefndi hún, eins og formaður Samfylkingarinnar gerði fyrr í dag, að ekki lægi fyrir á þessu stigi máls hvers vegna ríkisstjórnin teldi þörf á að búa til sína eigin skilgreiningar í áhættumati á öðrum löndum. „Hvers vegna stuðst er við nýgengni smita upp á 750 á hverja 100.000 íbúa þegar Sóttvarnastofnun Evrópu og sóttvarnalæknir hafa sagt að þessi hááhættusvæði séu með nýgengni upp á 500 eða meira. Þetta verður að vera skýrt,“ sagði hún. 

Halldóra sagði að Píratar teldu farsælast að herða aðgerðir á landamærunum og að það væri besta leiðin til að tryggja réttindi borgara. „Valið akkúrat núna stendur á milli þess að setja harðar takmarkanir innanlands eða harðar takmarkanir á landamærunum og það er mat Pírata að þær síðarnefndu tryggi heilt yfir betur réttindi borgaranna. Þannig að við munum styðja lagabreytingar sem miða að því að renna stoðum undir dvöl á þessum sóttvarnahótelum,“ sagði hún. Hún óttaðist þó að tillaga ríkisstjórnarinnar um lægri viðmið í áhættumati stefndi öryggi landsmanna í hættu og væri ekki til þess fallið að ná tilsettum markmiðum.