Norska lögreglan leitar að morðingja

21.04.2021 - 05:40
Mynd með færslu
 Mynd: Dennis Ravndal - NRK
Karlmaður lést af völdum skotsára sem hann hlaut fyrir utan matvöruverslun nærri bænum Tønsberg í suðurhluta Noregs í gærkvöld. Lögreglan fékk tilkynningu um að maður hafi særst í skotárás á ellefta tímanum í gærkvöld að staðartíma.

Lögreglumenn hófu skyndihjálp á vettvangi áður en honum var ekið með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Vestfold. Þar var hann úrskurðaður látinn um klukkan hálf tvö í nótt. 

Fréttastofa norska ríkisútvarpsins, NRK, kveðst hafa heimildir fyrir því að fórnarlambið hafi verið góðkunningi lögreglunnar. Hann átti að baki doma, meðal annars vegna fíkniefnabrota. Lögreglan rannsakar nú hvort málið tengist fíkniefnaviðskiptum.

Árásarmaðurinn er ófundinn og óskar lögreglan eftir því að vitni gefi sig fram. Hver sá sem varð var við bílferðir, mannaferðir, heyrði eitthvað eða sá eitthvað grunsamlegt er beðinn um að hafa samband við lögregluna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV