
Nokkrir þingmenn gerðu fyrirvara við frumvarp Svandísar
Þingmenn stjórnarflokkanna fengu kynningu á frumvarpinu í kvöld áður en því var dreift.
Vefur Fréttablaðsins hefur eftir þingflokksformönnum VG og Framsóknar að þar hafi ríkt algjör einhugur. „Það eru allir á því að þetta sé það sem þurfi að gera núna,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna. Í sama streng tekur Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknar. „Við fögnum þessu og erum ánægð að fá þetta inn.“
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir við fréttastofu í kvöld að nokkrir þingmenn hafi gert fyrirvara við frumvarpið. Þeir muni lýsa þeirri afstöðu sinni þegar málið verður rætt á Alþingi á morgun. Þingflokkurinn hafi samþykkt að leggja fram frumvarpið. „Eins og jafnan er þegar alvöru mál eru rædd voru líflegar umræður en að öðru leyti tala menn sínu máli þegar það kemur inn í þingið.“
Birgir vildi ekki gefa upp hversu margir þingmenn settu fyrirvara við frumvarpið. Reiknað er með að frumvarpið verði samþykkt strax á morgun og taka lögin þá strax gildi.
Samkvæmt því verður heimilt að skylda farþega sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir 1000 nýsmit á hverja 100.000 íbúa, til að dveljast í sóttkvíarhúsi. Sömuleiðis gerir frumvarpið dómsmálaráðherra kleift að takmarka ónauðsynleg ferðalög hingað til lands frá þessum sömu svæðum.