Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Jákvætt skref fyrir allt samfélagið á Íslandi“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar fagnar fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda á landamærunum og segir þær bera vott um kjark. Loksins sjái fyrir endann á faraldrinum.

Öllum hömlum aflétt

Evrópskt litakóðunarkerfi með íslensku sniði á að taka gildi 1. júní og gangi bólusetningaráætlun stjórnvalda eftir er stefnt að því að aflétta öllum hömlum innanlands þann 1. júlí. Þá eiga allir íbúar landsins, 16 ára og eldri að vera komnir með fyrri skammtinn af bóluefni gegn COVID-19. 

Áformin fela meðal annars í sér að fólk sem kemur frá löndum þar sem nýgengi innanlandssmita er yfir 1000 á hverja hundrað þúsund íbúa þurfa að fara í sóttvarnahús við komuna til landsins og þeir sem koma frá löndum þar sem nýgengi er yfir 750 þurfa þess einnig, nema þeir fái undanþágu. Þetta þýðir að fólk sem kemur frá Hollandi, Póllandi, Frakklandi eða Ungverjalandi þarf að dvelja í sóttvarnahúsi eftir komuna til landsins. Fólk frá löndum þar sem minna er um smit sleppur við 5 daga sóttkví á sóttvarnarhúsi en þarf engu að síður að fara í sóttkví við komuna til landsins. Eftir fyrsta júní, þegar litakóðunarkerfið tekur gildi, geta þau sem koma frá lágáhættusvæðum sloppið við fimm daga sóttkví, að því gefnu að 65% fullorðinna innanlands hafi fengið að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni. 

Aukinn fyrirsjáanleiki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, sagði í fréttum í gær að aðgerðir stjórnvalda væru ekki áfall fyrir ferðaþjónustuna. Ferðavilji aukist mest í löndum þar sem bólusetningar gangi vel og þar liggi tækifærin. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður samtaka ferðaþjónustunnar, fagnar framtaki stjórnvalda: „Mér sýnist þetta vera skynsamlegt og faglegt áhættumatskerfi sem er verið að koma þarna á fót sem tekur tillit bæði til stöðu á bólusetningum hér innanlands og stöðu faraldursins erlendis. Þetta er allt byggt á gögnum og bara óskandi að um þetta náist víðtæk sátt í samfélaginu.“

Bjarnheiður segir stóru fréttirnar þær að með útspilinu sjái fyrir endann á öllu saman. Þetta auki fyrirsjáanleika. „Það er gott að vera komin með þessar dagsetningar, annars vegar 1. júní og hins vegar 1. júlí. Það er bara gleðilegt að það skuli vera kjarkur fyrir hendi til að stíga þessi mikilvægu skref og bara mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustuna og allt samfélagið á Íslandi.“  

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að fólk frá löndum þar sem minna er um smit þyrfti ekki í fimm daga sóttkví. Það er rangt, fram til 1. júní þurfa allir sem koma til landsins, fyrir utan fólk sem er bólusett eða með mótefnavottorð, að fara í fimm daga sóttkví. Eftir 1. júní ræðst þetta af útbreiðslu faraldursins í hverju landi og hlutfalli bólusettra innanlands en líklegast þarf fólk frá lágáhættusvæðum þá ekki í fimm daga sóttkví, bara framvísa neikvæðu prófi og fara í skimun á landamærum. Hömlum verður svo létt enn frekar eftir 1. júlí þegar allir 16 ára og eldri eiga að vera komnir með fyrri skammt.