Jafnt á Ásvöllum en HM-draumurinn úti

epa09088598 Iceland's bench players react during the 2021 World Women's Handball Championship European qualification match between Iceland and Lithuania in Skopje, Republic of North Macedonia, 21 March 2021.  EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI
 Mynd: Georgi Licovski - EPA

Jafnt á Ásvöllum en HM-draumurinn úti

21.04.2021 - 19:34
Kvennalandslið Íslands í handbolta mætti Slóveníu í síðari umspilsleik liðanna um sæti á HM. Fyrri leiknum lauk með 10 marka tapi í Slóveníu og ætlaði íslenska liðið sér að gera betur á Ásvöllum í kvöld.

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, gerði eina breytingu á milli leikja en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, kom inn í hópinn í stað Mariam Eradze. Eftir tíu marka tap í fyrri leik umspilsins var ljóst að það var við ramman reip að draga hjá íslenska liðinu í kvöld. Ísland byrjaði þó mun betur en í leiknum á laugardag og lengst af var Ísland með forystuna. Slóvenar skoruðu hins vegar þrjú mörk í röð undir lok fyrri hálfleiksins og voru einu marki yfir í hálfleik, 9-8.

Síðari hálfleikurinn var sveiflukenndur og liðin skiptust á að ná forystunni. Leiknum lauk með jafntefli, 21-21, og Slóvenar unnu því einvígið með tíu marka mun eftir fyrri leikinn.

Eftir leikina tvo er ljóst að Slóvenía er á leiðinni á HM á Spáni í desember en HM-draumur Íslands er úti. Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í íslenska liðinu í kvöld með 5 mörk en þær Sigríður Hauksdóttir og Lovísa Thompson skoruðu fjögur mörk hvor.