Indverska heilbrigðiskerfið á heljarþröm

21.04.2021 - 07:02
epa09147067 A general view of a Covid care facility set up at a Government School which is attached to a Hospital in New Delhi, India, 20 April 2021. India is seeing a second wave of the virus which has led several states including Maharashtra and the capital, New Delhi and Madhya Pradesh to impose new restrictions.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, líkir kórónuveirufaraldrinum í landinu við storm sem gengur yfir heilbrigðiskerfið og reynir að leggja það í rúst. Heilbrigðisyfirvöld í Nýju Delhi segja súrefnisbirgðir sjúkrahúsa borgarinnar við það að klárast. 

Ríkisstjórn Modis vinnur nú að því ásamt héraðsstjórnum um allt land að tryggja nægan aðbúnað í sjúkrahúsum landsins. Al Jazeera hefur eftir ávarpi forsætisráðherrans að ástandið hafi verið viðráðanlegt þar til fyrir nokkrum vikum. Önnur bylgja faraldursins hafi birst eins og stormur. Hann hvatti þjóðina itl að halda sig innandyra og halda ró sinni.

Þeim fer hratt fjölgandi tilfellunum í Indlandi, þar sem vel á þriðja hundrað þúsund hafa greinst með COVID-19 á hverjum sólarhring undanfarið. Síðustu tvo daga hefur yfir þriðjungur smita á heimsvísu greinst í landinu. Yfir 15 milljónir COVID-19 tilfella hafa greinst í Indlandi og yfir 180 þúsund eru látnir samkvæmt heimildum tölfræðivefsins Worldometers. 

Modi biðlaði til héraðsstjórna að beita ekki útgöngubanni til þess að hindra faraldurinn nema í algjörri neyð. Þær eigi frekar að einbeita sér að öðrum leiðum til að halda honum í skefjum. Yfirvöld í Delhi lýstu yfir útgöngubanni á mánudagskvöld. Bannið verður í viku.