Eigandi Liverpool biðst afsökunar–„Ég ber einn ábyrgð“

Mynd með færslu
 Mynd: liverpoolfc.com

Eigandi Liverpool biðst afsökunar–„Ég ber einn ábyrgð“

21.04.2021 - 08:21
John Henry, eigandi enska fótboltaliðsins Liverpool, bað í morgun stuðningsmenn liðsins afsökunar á því feigðarflani sem Ofurdeild Evrópu reyndist. Liverpool var eitt tólf stofnliða deildarinnar en sagði sig frá verkefninu eftir mikil mótmæli í gær.

Liverpool sendi frá sér stutta yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem fram kom að liðið ætlaði sér ekki að taka þátt í Ofurdeildinni, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu um annað. 

Í morgun kom svo nánari útskýring og afsökunarbeiðni frá Henry.

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér að neðan.

„Ég vil biðja alla aðdáendur og stuðningsmenn Liverpool afsökunar á rótinu sem verið hefur undanfarna 48 klukkutíma,“ segir Henry í yfirlýsingu sinni.

„Það segir sig sjálft en þarf samt að taka fram að verkefnið hefði aldrei gengið án stuðningsmannanna. Enginn hélt annað. Á síðustu 48 klukkutímum hefur það orðið deginum ljósara að verkefnið myndi ekki ganga. Við heyrðum í ykkur, ég heyrði í ykkur.“

„Ég vil biðja Jürgen, Billy, leikmenn og alla aðra sem vinna hjá Liverpool við að fylla stuðningsfólk okkar stolti afsökunar. Þau bera enga ábyrgð á þessu róti. Rótið kom verst við þau og það er ósanngjarnt. Það er það sem er verst. Þau elska liðið ykkar og vinna hörðum höndum dag hvern við að gera ykkur stolt.“

„Aftur, mér þykir þetta leitt og ég ber einn ábyrgð á þeirri ónauðsynlegu neikvæðni sem brotist hefur fram síðustu daga. Það er eitthvað sem ég mun ekki gleyma og sýnir valdið sem stuðningsfólk hefur núna og mun með réttu hafa áfram,“ segir John Henry.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ensku liðin segja skilið við Ofurdeildina

Fótbolti

Ofurdeildin að fjara út