Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég segi að þetta sé sál Íslands“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Í dag eru fimmtíu ár liðin síðan Danir skiluðu Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók heim með viðhöfn. Af þessu tilefni verður í dag lagður hornsteinn að nýju húsi íslenskra fræða. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segir handritin vera sál Íslands og að mikilvægt að miðla þeim til nýrra kynslóða. 

„Ég segi að þetta sé sál Íslands,“ segir Lilja Alfreðsdóttir á Morgunvaktinni á Rás 1. Í handritunum sé að finna dýrmæta leiðsögn um lífið og hvernig skuli koma fram við annað fólk.  „Mér finnst rosalega mikilvægt að allt sem er í handritunum, að við miðlum því og varðveitu það áfram, ég verð að segja að mér finnst skólakerfinu okkar hafa tekist mjög vel til.“ Kennarar hafi náð að láta þetta námsefni höfða til ungs fólks.

Lengi baráttumál að varðveita handritin

 Í dag verður lagður hornsteinn að hringlóttu húsi Húsi íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík. Lilja segir að það hafi lengi verið baráttumál að varðveita handritin svo sómi sé af og hægt sé að sýna þau. „Ég legg svo mikla áherslu á að við séum að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð og þessa stafrænu veröld. Ef við hugsum líka um hvað er í þessu, norræn goðafræði hefur verið uppspretta lista fólks um víða veröld og ef við hefðum ekki varðveitt handritin og passað upp á þetta þá væri þessi heiðni heimur hulinn.“
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV