Dómsmálaráðuneytið rannsakar lögregluna í Minneapolis

21.04.2021 - 14:43
epa09105715 Protesters march through downtown Minneapolis on the first day of opening statements for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin who was charged in the death of George Floyd, in Minneapolis, Minnesota, USA, 29 March 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: epa
Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að dómsmálaráðuneytið hefði hafið rannsókn á starfsháttum lögreglunnar í Minneapolis. Kveikjan að rannsókninni er morðið á George Floyd í fyrrasumar en henni er ætlað að varpa ljósi á það hvort starfshættir lögreglu séu samkvæmt lögum og standist stjórnarskrá.

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin var sekfelldur í öllum þremur ákæruatriðum fyrir að verða Floyd að bana í maí í fyrra. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsisdóm. Merrick Garland lýsti því yfir í síðustu viku að hann ætlaði að rýna nánar í starfshætti lögreglunnar í Minneapolis í þessu máli og öðrum svipuðum. Þá sagði hann að ráðuneytið myndi einnig aðstoða fleiri lögregluembætti til að efla sitt starf og auka traust á störfum lögreglunnar sem hafi beðið hnekki.