Bólusetningar spara mikla fjármuni í heilbrigðiskerfinu

Mynd: Bergljót Baldursdóttir / Bergljót Baldursdóttir
Niðurstöður langtímarannsóknar á áhrifum bólusetningar á heilbrigðiskostnað hér á landi sýna að miklir fjármunir hafa sparast eftir að farið var að bólusetja börn við pneumokokkum. Gera má ráð fyrir að dregið hafi úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu um tæpan milljarð á árunum 2013-2015. Þetta kemur fram í grein sem nýlega var birt í vísindaritinu PlosOne.

Umfangsmikil rannsókn á áhrifum bólusetningar

Einn af höfundum greinarinnar er Elías Snæbjörn Eyþórsson, læknir í sérnámi í svæfingar- og gjörgæslulækningum á Landspítalanum og fleiri íslenskir vísindamenn. Greinin er sú síðasta í röð vísindagreina sem skrifaðar hafa verið um rannsóknir á áhrifum bólusetningar við pneumokokkum sem hófust hér á landi árið 2011. Nokkru síðar hófst umfangsmikil rannsókn á áhrifum hennar undir stjórn tveggja íslenskra lækna: Ásgeirs Haraldssonar, Karls G. Kristinssonar og Helgu Erlendsdóttur lífeindafræðings. Elías Snæbjörn tók þátt í rannsókninni og doktorsverkefni hans er hluti af henni.

Sjúkrahúsdvöl kostar peninga og þjáningu

Pneumokokkar er hættulegir sýklar sem valda alvarlegum sýkingum, eins og eyrnabólgu, lungnabólgu og alvarlegum ífarandi sýkingum eins og heilahimnubólgu og blóðsýkingum sem geta verið lífshættulegar. Bóluefnið sem notað er til að bólusetja við pneumokokkum er dýrt en sýnt hefur verið fram á að það fækkar alvarlegum sýkingum. 

Elías segir að það sé alvarlegt þegar barn leggst inn á spítala t.d. með lungnabólgu. Mikil þjáning fylgi því og það sé hræðilegt fyrir barnið. „En það er líka kostnaðarsamt. Það kostar legudeildarpláss. Það kostar blóðprufur og rannsóknir. Það kostar tíma frá vinnu fyrir foreldrana og allt þetta skal vega upp á móti kostnaðinum af bólusetningunni.“ 

Ekki þýði að tala um að það kosti marga tugi milljóna að bólusetja ef ekki er horft til þessa kostnaðar. „Með því að koma í veg fyrir eitt lungnabólgutilfelli þá er jafnvel verið að spara upp í eina milljón króna.“

Bóluefnið mikil fjárfesting

Bóluefnið við pneumokokkum sé mikil fjárfesting. Þjóðfélagið spari þónokkuð mikið vegna bólusetninganna. „Ekki bara fengum við færri tilfelli, sem er jú markmiðið, heldur spöruðum við líka pening og þann pening má nota til að bæta heilbrigðisþjónustuna annars staðar.“

Eftir að farið var að bólusetja við pneumokokkum fækkaði sýkingum verulega hjá bólusettum börnum en líka hjá óbólusettum og fullorðnu fólki. 
„Niðurstöður, sérstaklega þessarar síðustu greinar, bentu til þess að hjá börnum á bólusetningaraldri dró úr tíðni miðeyrnabólgu um 30 prósent að meðaltali. Og við sáum það líka hjá eldri börnum, sem ekki voru í þeim fæðingarárgöngum sem að gátu fengið bólusetninguna, voru of gömul þegar bólusetningin hófst, það dró líka úr tíðni miðeyrnabólgu sem að bendir einmitt til þessa hjarðónæmis.“

Sams konar útreikningar voru gerðir á lungnabólgu og tíðni hennar lækkaði um 15-20 prósent. Og alvarlegustu sýkingarnar, ífarandi sýkingar, nánast hurfu. „Það voru eitt til tvö börn á ári áður. Af þessum undirtegundum bakteríunnar [..] þá greindist ekkert barn á Íslandi með þessa ífarandi gerð eftir upphaf bólusetningar.“

Sjö milljónir bandaríkjadollara

Elías reiknaði út kostnaðinn við bólusetninguna og bar saman við þann kostað sem myndast þegar barn sýkist. „Og þetta stutta tímabili nær frá 2013-2015. Bara á þessum örfáu árum þá virðist kostnaðurinn við bólusetninguna neikvæður um sjö milljónir bandaríkjadollara á þessum tíma að teknu tilliti til sparnaðarins sem fólst í því að fækka spítalainnlögnum, komum til heimilislækna o.s.frv..“

Þannig hafi það komið í ljós að þótt farið hafi verið út í mjög mikla fjárfestingu í dýru bóluefni hafi það skilað sér til baka því sýkingum fækkaði töluvert. Um sjö milljónir bandaríkjadollara eru hátt í níuhundruð milljónir íslenskra króna. Elías bendir á að töluverð óvissa fylgi þessari tölu. Til dæmis sé óvissa varðandi hversu mörg tilfelli sé hægt að koma í veg fyrir. Einnig sé óvissa um nákvæmlega hver kostnaðurinn af hverju tilfelli hefði orðið og líka er óvissa vegna gengisþróunar o.s.frv. Tekið sé tillit til þessarar óvissu í matinu. 

„Og við fáum þetta mat og allt bilið af mögulegum tölum það spannar allt frá 16 milljóna dollara sparnaði niður svona 500 þúsund dollara sparnað. En það er allt sem bendir til þess að fjárfestingin í bóluefninu á þessum stutta tíma hafi verið sparnaðaraðgerð fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þótt það hafi verið mikil upphafsfjárfesting.“

Bólusetningin sé fjárfesting sem skili sér til lengri tíma og segja megi að því lengra tímabil sem skoðað er því meiri verði sparnaðurinn. Gögnin í þessu tilfelli hafi náð til ársins 2015. Enn þá meiri sparnað mætti væntanlega sjá ef hann er skoðaður fram til dagsins í dag. 

Bólusetningar eru verkfæri 

Undanfarið hefur lítið verið talað um annað en bólusetningar við COVID-19. Elías segir að bóluefni og bólusetningar séu verkfæri.

„Og ég held að það séu mjög fáir hlutir í læknisfræði sem hafa bjargað fleiri mannslífum en bólusetningar. Þetta er verkfæri sem er mjög öflugt við sýkingum eins og pneumokokkum, eins og við hlaupabólu og við COVID-19.“