Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þurftu að fjölga verkfærum í töskunni

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að stjórnvöld hafi þurft að tryggja það að sóttvarnahótel sé regla fyrir þá sem koma frá svæðum þar sem faraldurinn er í uppsveiflu. Fjölga hafi þurft verkfærum í tösku stjórnvalda hér á landi.

„Við þurfum líka að snúa nálguninni við þannig að fólk geti sótt um undanþágu ef það er á svæðum þar sem eru örlítið færri smit en á þeim svæðum þar sem smitin eru hvað mest. Við sjáum líka með þessu ákveðna leið með þessu frumvarpi að þetta sé bráðabirgðaákvæði, sem varir í tiltekinn tíma, sett fram í ljósi stöðunnar núna en sé ekki tiltækt um ókomna tíð til þess að ná utan um stöðuna eins og hún er núna. Þá get ég gefið út reglugerð á grundvelli þessa lagaákvæðis, og alltaf byggt á tillögum sóttvarnalæknis,“ sagði Svandís þegar aðgerðirnar voru kynntar í Hörpu síðdegis.

Allir farþegar frá löndum sem eru með þúsund smit á hverja hundrað þúsund íbúa þurfa að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli. Farþegar frá löndum með 750 smit á hverja hundrað þúsund íbúa þurfa einnig að vera á sóttkvíarhóteli en geta sótt um undanþágu ef þeir geta sýnt fram á viðeigandi aðstæður heima fyrir. Dómsmálaráðherra fær heimild til að banna ónauðsynleg ferðalög frá löndum þar sem nýgengi er þúsund smit eða hærra.

Gæti þurft að fjölga sóttvarnahótelum

Svandís segir að það sé full ástæða til að grípa til hertra aðgerða við landamærin nú svo að fólk geti lifað nokkuð eðlilegu lífi innanlands. Hún vonast til að aðgerðirnar taki gildi strax og þær hafa farið í gegnum þrjár umræður á Alþingi og eftir að sóttvarnalæknir hefur skilað henni minnisblaði sínu. Því má jafnvel búast við að það fjölgi á sóttkvíarhótelinu, jafnvel um helgina.

„Það gæti gert það. Við þurfum líka að hafa augun opin fyrir því að fjölga sóttkvíarhótelum og horfa til þess að börn geti farið út að leika sér og útivera er aðgengilegri en hún hefur verið í stóra hótelinu,“ segir Svandís.

Viðurlög ekki nógu hörð

Hún segist vera á því að sektir við sóttvarnalagabrotum séu ekki nægilega háar.

„Sóttvarnalæknir lagði til að við myndum hækka sektargreiðslur og ég gerði þá tillögu að minni og skrifaði til Ríkissaksóknara um það sem féllst ekki á þær tillögur. Svo við erum með þau úrræði sem við erum með í höndunum,“ segir Svandís.