„Það er mjög stór Pfizer dagur í dag"

20.04.2021 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Rúmlega tólf þúsund manns manns fá bólusetningu í þessari viku með tveimur tegundum bóluefna. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma er stærsti hluti þeirra sem fá sprautu í þessari viku. Fyrstu vikuna í maí má svo búast við stóru stökki.

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma sprautað í vikunni

Bólusetning heldur áfram í þessari viku af töluverðum krafti en í dag verður fólk á aldrinum 65-70 ára með undirliggjandi áhættuþætti boðað í bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu. Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að þungi verði lagður í að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma í vikunni. 

Ungt fólk með langtímaveikindi og fatlaðir bólusettir á morgun

„Það er mjög stór Pfizer dagur í dag, þannig að það er í gangi í dag og það var byrjað að blanda bóluefni klukkan sjö í morgun fyrir þann dag. Nú á morgun, tökum við Moderna bóluefnið og þá erum við að taka áfram forgangshópa, annars vegar svona unga einstaklinga sem eru með langtímaveikindi og fatlaða einstaklinga," segir Sigríður. 

Færa sig í stóra salinn í Höllinni

Auk höfuðborgarsvæðisins verður bólusett víða um land í vikunni en á Akureyri fá 300 manns bólusetningu í dag. Svipaður fjöldi verður bólusettur í næstu viku á landinu en fyrstu vikuna í maí má svo búast við mikilli aukningu þegar hingað koma nærri 26 þúsund skammtar. Og þá þarf að gera ráðstafanir í Laugardalshöll og taka í gagnið stærri sal.

„Nú erum við að fara að færa okkur þannig að næstu viku erum við að fara að færa okkur inn í stóra salinn, þess vegna getum við verið með svona mikinn fjölda."

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sigríður Dóra