Störukeppni hafin um framtíð knattspyrnunnar

epa09144616 (FILE) - The UEFA Champions League trophy (L) and the Henri Delaunay trophy (R) of the UEFA EURO soccer championship on display at the UEFA headquarters in Nyon, Switzerland, 18 September 2014 (reissued 19 April 2021). In the early hours of 19 April 2021 twelve European soccer clubs, AC Milan, Arsenal FC, Atletico de Madrid, Chelsea FC, FC Barcelona, FC Internazionale Milano, Juventus FC, Liverpool FC, Manchester City, Manchester United, Real Madrid CF and Tottenham Hotspur have announced the creation of a Super League which would rival the excisting UEFA club competitions and has been strongly condemned by the UEFA.  EPA-EFE/JEAN-CHRISTOPHE BOTT
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE

Störukeppni hafin um framtíð knattspyrnunnar

20.04.2021 - 00:27
Yfirlýsing tólf knattspyrnuliða í gærkvöld um stofnun Ofurdeildar Evrópu hefur valdið uppnámi og jafnvel geðshræringu. Forseti danska knattspyrnusambandsins segir að reka eigi þrjú þeirra; Chelsea, Real Madrid og Manchester City úr Meistaradeild Evrópu þar sem þau eru í undanúrslitum ásamt franska liðinu PSG. Forseti UEFA hefur hótað liðunum og leikmönnum þeirra öllu illu og breskir ráðherrar segjast ætla að beita sér af öllu afli.

Ofurdeild af einhverju tagi hefur lengi verið í deiglunni. Stóru liðin sem borga skærustu stjörnunum hæstu launin, fá flesta áhorfendur og mesta sjónvarpsáhorfið vilja tryggja tekjur sínar og sæti sitt í Meistaradeild Evrópu, eftirsóttustu keppni heims og þá sem gefur hvað best í aðra höndina.

Hugmyndin með Ofurdeildinni er að liðin tólf séu með fast sæti auk þriggja annarra sem hafa boðað komu sína. Fimm lið tryggi sér sæti í deildinni með árangri sínum heimafyrir hverju sinni. Stofnliðin missa aldrei sæti sitt, sama hver árangur þeirra er. 

Að margra mati gengur Ofurdeildin í berhögg við það hvernig flestir hugsa um knattspyrnu. Og telja að það verði einmitt að vernda einstaka fegurð leiksins; að litlu liðin geti áfram strítt þeim stóru og að velgengni ríku liðanna sé ekki sjálfgefin. „Þessi áform stríða gegn hugmyndinni um knattspyrnu og með þessu eru þeir að hrækja framan í aðdáendur fótboltans. Þau vilja frægð en verða alræmd í staðinn,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA. 

Viðbrögðin hafa flest verið á þessa lund. Stuðningsmannafélög liðanna á Englandi hafa lýst andúð sinni á Ofurdeildinni og henni var mótmælt þegar Liverpool, eitt Ofurdeildarliðanna, mætti Leeds í kvöld í ensku úrvalsdeildinni. Leikmenn Leeds klæddust meira að segja bol þar sem gagnrýni var komið á framfæri; lið yrðu að vinna sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Ekkert lið gæti átt slíkt sæti. Liðin skyldu jöfn í leiknum.

Viðbrögðin hafa verið einna hörðust á Englandi en fimm lið auk Livepool eru hluti af Ofurdeildinni. Þetta eru Chelsea, Manchester-liðin tvö, Arsenal og Tottenham.  Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði fyrr í dag að ríkisstjórn hans ætlaði að gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir stofnun deildarinnar.

Oliver Dowden, íþróttamálaráðherra landsins, sagði Ofurdeildina ekki í anda knattspyrnunnar. „Eigendur þessara liða ættu að muna að þeir eru einungis tímabundnir gæslumenn.“ Ef FIFA og UEFA gætu ekki brugðist við myndi ríkisstjórnin gera það. „Við ætlum að vernda þjóðaríþrótt okkar.“

Fram kemur á vef BBC að sú hugmynd hafi verið rædd að taka upp „þýsku leiðina“. Hún er í daglegu tali kölluð  „50+1“ og tryggir að félögin haldast í eigu stuðningsmanna. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að fjársterk fyrirtæki eignist félag í heild sinni.  Enda er ekkert þýskt lið hluti af Ofurdeildinni þótt ríkjandi Evrópumeistarar séu einmitt Bayern München.

Þá eru bresk yfirvöld einnig sögð íhuga að láta félögin sem fengu hagstæð lán vegna kórónuveirunnar endurgreiða þau strax. Ljóst er að stjórnvöld og knattspyrnusambönd eru reiðubúin til að grípa til harðra aðgerða.

Forseti danska knattspyrnusambandsins lýsti því meðal annars yfir á vef DR að Chelsea, Manchester City og Real Madrid yrðu rekin úr undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og það strax á fundi á föstudag. „Við þurfum síðan að finna einhverja leið til að ljúka keppninni. “ Forseta Real Madrid kallaði þessa hugmynd Danans fáranlega.

Ceferin, forseti UEFA, gaf jafnframt í skyn að leikmönnum þessara liða yrði bannað að keppa með landsliðum sínum á stórmótum eins og HM og EM. Hugsanlega myndi það ekki takast fyrir EM í sumar en banninu yrði beitt fyrir HM á næsta ári.  Leikmannasamtökin FIFApro lýstu því strax yfir að þau myndu berjast gegn slíku banni af mikilli hörku. 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Liðið og stuðningsmenn það mikilvægasta í knattspyrnu

Fótbolti

Breyta fyrirkomulagi Meistaradeildarinnar

Fótbolti

„Þú kaupir ekki drauma“

Fótbolti

Forseti UEFA: Þeir mega ekki spila á EM og HM