Sjónvarpsfréttir: Aðgerðir hertar á landamærunum

20.04.2021 - 18:11
Allir þeir sem koma frá Póllandi, Frakklandi, Hollandi og Ungverjalandi verða skikkaðir á sóttkvíarhótel. Ríkisstjórnin stefnir að því að aflétta öllum sóttvarnartakmörkunum innanlands í júní þegar stærstur hluti fullorðinna verður búinn að fá að minnsta kosti fyrri skammt af bóluefni.

Mögulega eru tengsl milli bóluefnis Janssen og blóðtappa, samkvæmt rannsókn Lyfjastofnunar Evrópu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort efnið verði notað hér á landi.

Strengjaleikur félaga úr Sinfóníuhljómsveit Íslands hljómaði við bólusetningu í Laugardalshöll í hádeginu. Um sex þúsund Íslendingar fengu sprautu frá Pfizer í dag.

Samgönguráðherra segist bera fullt traust til Samgöngustofu til að sinna eftirliti með fjárhag flugfélaga þrátt fyrir harðorða gagnrýni Ríkisendurskoðunar, enda hafi stofnunin gert viðeigandi úrbætur. 

Fjármunir til hernaðarmála á heimsvísu í rúman sólarhring myndu duga til að bjarga þeim sem eru að svelta í hel. Þetta kemur fram í ákalli hjálparsamtaka til stjórnvalda um heim allan. 

Bautasteinn var reistur á leiði stórskáldsins Páls Ólafssonar og konu hans Ragnhildar Björnsdóttur í Hólavallagarði í dag. Gröf þeirra var týnd um árabil en fannst loks í fyrra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir verður gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi eftir fréttir þar sem hann fer yfir stöðu faraldursins, aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í dag, framhald bólusetninga og hvenær hann sjái fyrir sér að hægt verði að létta verulega á sóttvarnareglum.  

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV