Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sérstakt að spila við bólusetningu

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um sex þúsund manns fengu fyrstu sprautu af bóluefni frá Pfizer í dag. Í Laugardalshöll fékk fólk að hlýða á strengjaleik.

Það var glatt á hjalla fyrir norðan í dag þegar þrjú hundruð manns fengu sína fyrstu sprautu frá Pfizer á slökkvistöðinni á Akureyri. Þar fannst fólki munur að hafa fengið bóluefni.

Hátíðarstemmning var þá í Laugardalshöll þar sem strengjakvartett frá Sinfóníuhljómsveit Íslands spilaði ljúfa tóna fyrir heilbrigðisstarfsfólk og fólk sem kom í bólusetningu.

„Það er alveg einstaklega ljúft að hafa þau hérna með okkur. Ég var að prófa að sprauta áðan og það gekk mjög vel að sprauta undir svona yndislegri tónlist,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þórunn Ósk Marinósdóttir, leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir sérstakt að spila við bólusetningu.

„Maður er náttúrulega búinn að vera í heilt ár eins og staddur í vísindaskáldsögu og þetta er svolítið eins og það. Það er fullt af fólki að fá bóluefni og við að spila úti í horni. Allir með grímu, bara mjög sérstakt.“