Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir hagsmuni WOW ekki hafa ráðið för

Mynd: Marvin Mutz / Wiki Commons CC-BY-SA
Forstjóri Samgöngustofu segir af og frá að viðskiptalegir hagsmunir WOW Air hafi ráðið för þegar kom að því að fylgjast með bókhaldi félagsins. Samgönguráðherra segir að atburðarásin í kringum fall WOW hafi átt þátt í því að ákveðið var að auglýsa stöðu þáverandi forstjóra Samgöngustofu.

Fréttastofa hefur fjallað ítarlega um úttekt Ríkisendurskoðunar á falli WOW Air, en þar er gagnrýnt hvernig Samgöngustofa sinnti fjárhagslegu eftirliti með flugfélaginu. Trúnaður hefur ríkt um efni skýrslunnar og því hafa stjórnmála- og embættismenn ekki getað tjáð sig um hana fyrr en nú, en umhverfis- og samgöngunefnd aflétti trúnaði í morgun eftir umfjöllun.

 „Það sem mér finnst skipta mestu máli er það að það sem kom fram í skýrslunni er að flugöryggi var sinnt og það er meginhlutverk stofnunarinnar að tryggja að flugöryggi sé í lagi,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.

Vildu ekki grípa of sterkt inn í

Í skýrslunni segir að Samgöngustofu hafi borið að afturkalla flugrekstrarleyfi WOW, í það minnsta tímabundið, svo snemma sem í maí 2018 þegar ljóst var að félagið var í verulegum vandræðum. Virðist sem viðskiptalegir hagsmunir hafi ráðið þar för.

Því hafnar Jón Gunnar. Hann segir afturköllun flugrekstrarleyfis orka tvímælis og að á þessum tíma hafi WOW verið að draga saman seglin og endurskipuleggja fjárhaginn. „Farþegum var að fækka, flugleiðum að fækka, flugvélum að fækka. Þá væri mjög skrítið ef það er raunhæf endurskipulagning í gangi að grípa svo sterkt inn í. Það er okkar mat en þetta má náttúrlega ræða og skoða nánar.“

Ráðherra treystir Samgöngustofu

Í skýrslunni er rakið að ekki hafi ríkt traust á milli stjórnvalda og Samgöngustofu og vísað í minnisblað samgönguráðherra þar sem efast er um að Samgöngustofa hafi getu til að sinna fjárhagslegu eftirliti með flugfélögum. Spurður að því hvort hann treysti Samgöngustofu til að sinna fjárhagslegu eftirliti með flugfélögum svarar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra: „Já, algjörlega. Eftir að þessum tíma lauk þá komum við þessum tíma á og ég veit ekki annað en að starfsmennirnir þar hafi staðið sig bara prýðilega þegar þeir voru komnir með rétta verklagið í hendur.“

Hafði áhrif á stöðu Þórólfs

Um það leyti sem WOW Air féll ákvað samgönguráðherra að auglýsa stöðu forstjóra Samgöngustofu í stað þess að endurnýja ráðningarsamning við þáverandi forstjóra, Þórólf Árnason. Þórólfur sótti um en var ekki ráðinn. Sigurður Ingi viðurkennir að fall WOW og verklag Samgöngustofu hafi haft áhrif þar á. „Við getum allavega bara sagt það þannig að það var ábótavant á þessum tíma hvernig stofnunin vann úr ákveðnum hlutum sem við gengum úr skugga að yrði gert sem að var síðan hluti af hinu heildstæða mati við að taka ákvörðun um að auglýsa.“

Viðtölin við Sigurð Inga og Jón Gunnar má sjá í fullri lengd í spilaranum hér að ofan.