Samfylkingin leggur fram frumvarp um hertar sóttvarnir

20.04.2021 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/RÚV
Frumvarpi þingflokks Samfylkingarinnar um hertar sóttvarnir á landamærunum hefur verið dreift á Alþingi. Frumvarpinu er ætlað að styrkja heimildir ráðherra til að skylda fólk til að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins.

Fyrri reglugerð ráðherra um skyldudvöl í sóttvarnahúsi var dæmd ólögmæt í Héraðsdómi Reykjavíkur og því þurftu stjórnvöld að hverfa frá þeim áformum.

Í frumvarpi Samfylkingarinnar er lögð til breyting á skilgreiningu á sóttvarnahúsi. Í núgildandi sóttvarnalögum segir að sóttvarnahús sé staður:

„Þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“

Í frumvarpi Samfylkingarinnar segir hins vegar að sóttvarnahús sé:

„Staður á vegum hins opinbera þar sem einstaklingur getur verið í sóttkví eða einangrun.“

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að flutningsmenn telji mikilvægt að sóttvarnayfirvöldum verði veitt heimild í lögum til að gefa út reglugerð er skyldar ferðamenn til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu. Bregðast þurfi hratt við í hættuástandi. Lögð er áhersla á að þessu ákvæði verði þó ekki beitt án ríkrar ástæðu.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV