Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Málflutningi lokið vegna drápsins á George Floyd

epa09146299 Protesters left notes on a boarded up windows across the street from the Hennepin County Government Center where the first day of closing arguments for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin who was charged in the death of George Floyd are being held, in Minneapolis, Minnesota, USA, 19 April 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vitnaleiðslum og málflutningi er lokið í réttarhöldunum yfir fyrrverandi lögreglumanninum Derek Chauvin, sem ákærður er fyrir drápið á blökkumanninum George Floyd í maí í fyrra og kviðdómendur hafa nú verið fluttir í einangrun til að ráða ráðum sínum án utanaðkomandi áreitis. Fjölmennt lögreglu- og þjóðvarðlið er í viðbragðsstöðu í Minneapolis, þar sem búist er við hörðum mótmælum og að líkindum óeirðum verði Chauvin sýknaður.

Verjandi Chauvins lauk málflutningi sínum með því að fullyrða að ákæruvaldinu hefði mistekist að sanna sekt hans svo óyggjandi væri.

Saksóknarinn Steve Schleicher hvatti kviðdómendur til þess í sínu lokaávarpi að sakfella Chauvin fyrir drápið á hinum 46 ára gamla George Floyd. Verknaðurinn, sem sjónarvottur kvikmyndaði og milljónir horfðu á um allan heim hafi ekki átt neitt skylt við lögreglustörf heldur verið morð, sem tók 9 mínútur og 29 sekúndur að fremja.

Það er sá tími sem Chauvin keyrði höfuð Floyds niður í götuna með því að þrýsta hné sínu fast að hálsi hans. „Ykkur er óhætt að trúa eigin augum," sagði Schleicher. „Þetta er nákvæmlega það sem þið vissuð, það sem þið funduð á ykkur, þetta er það sem þið vitið núna innst inni með fullri vissu."

Óttast óeirðir ef Chauvin verður ekki sakfelldur

Chauvin, sem er 45 ára gamall, er ákærður fyrir annarrar gráðu morð, og til vara fyrir morð af þriðju gráðu og manndráp, vegna drápsins á George Floyd hinn 25. maí 2020. Það gildir um öll þessi brot, að hinn ákærði verður því aðeins sakfelldur, að kviðdómurinn komist að einróma niðurstöðu. 

Drápið á George Floyd leiddi til harðra mótmæla og óeirða í Minneapolis í fyrra vor og sumar, og hefur því verið mótmælt reglulega allar götur síðan. Aðfarir Chauvins, sem náðust á mynd sem fyrr segir og fóru sem eldur í sinu um samfélags- og fjölmiðla heimsins, vöktu hörð viðbrögð og mikla reiði.

Þykir dráp Floyds sérlega skýr og sláandi birtingarmynd hins kerfislæga rasisma sem viðgengst víða innan lögreglunnar vestra og leiðir ítrekað til dráps lögreglumanna á óvopnuðum blökkumönnum og öðrum sem ekki eru hvítir á hörund.