Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Málarinn sem var ekki til

20.04.2021 - 15:21
Mynd: NRK / NRK
Galleríeigandi í Noregi hefur viðurkennt að hafa í mörg ár selt málverk eftir málara sem sagðir voru þekktir víða um heim. Nú hefur komið í ljós að þessir listamenn eru ekki til. Eigandi gallerísins málaði sjálfur myndirnar. Hann hefur nú verið sakaður um fjársvik.

Engin hafði séð Jensen

Málverk eftir listamanninn Werner Jensen voru vinsæl og ruku út. Listunnendur voru tilbúnir að greiða allt að 750 þúsund krónur fyrir eina mynd eftir þennan vinsæla listmálara. John Erik Hedemark eigandi gallerís í Ósló hefur síðustu 25 ár selt myndir eftir Werner Jensen. Í ferilskrá málarans kemur fram að hann hafi selt verk til margra stórfyrirtækja, að hann sé búsettur í Berlín og að hann hafi haldið málverkasýningar í fjölmörgum löndum. Gallinn er bara að það hefur enginn séð eða hitt þennan málara.

Grunur vaknar hjá lögreglunni

Í ágúst í fyrra bankaði lögreglan upp á í galleríinu hans Johns Eriks. Erindið var að kanna hvort hann hefði tilskilin leyfi til að selja málverk. Engin leyfi fundust. Hins vegar var lagt hald á yfir 200 málverk eftir Werner Jensen. Það fór að renna upp fyrir lögreglunni að ekki væri allt með felldu og að þessi vinsæli listmálari væri alls ekki til. 

„Smám saman hefur okkur orðið það ljóst að Werner Jensen er uppskálduð manneskja sem er ekki til í raunveruleikanum, að nafnið Werner Jensen hafi einfaldlega verið fundið upp til að skapa blekkingar um að þetta væri raunverulegur listamaður,“ segir Andreas Meeg-Bentzen lögfræðingur norsku lögreglunnar. Lögreglan lagði líka hald á verk eftir tvo aðra listamenn Knut Ohlesen og Erik Krohn. Í ljós hefur komið að þeir eru ekki heldur til.

                                    Sjá umfjöllun NRK

Nú hefur lögreglan sakað John Erik um fjársvik og jafnframt beðið þá sem hafa keypt verk eftir Jensen og líka Ohlesen og Krohn að hafa samband. Lögreglan er með um 250 myndir í sinni vörslu og hefur lýst því yfir að verkin verði eyðilögð í ljósi þess að þau eru á vissan hátt fölsuð. Verkin hafi verðið seld undir fölskum merkjum.

„Ég er Jensen, Ohlesen og Krohn“

Galleríeigandinn John Erik Hedemark er hins vegar alls ekki sáttur við framferði lögreglunnar. Hann segir að Werner Jensen sé listamannsnafn eða dulnefni. Hann hafi í 25 ár seldi myndir eftir hann. En hver er þá maðurinn á bak við listamannsnafnið?

„Werner Jensen er ég sjálfur segir,“ John Erik án þess að hika. Hann viðurkennir að hann sé líka Ohlesen og Krohn. Krohn sé ljósmyndari og Werner og Ohlesen hafi ólíkan stíl. Þess vegna hafi hann málað undir þremur nöfnum. Lögreglan lítur svo á að John Erik hafi platað kaupendur sína. John Erik er ekki sammála því. Viðskiptavinirnir hafa einfaldlega keypt myndir út fá því sem þeir sáu og fengu. Hann hafi ekki verið að svindla á fólki. Vonsviknir kaupendur hafa lagt fram 16 kærur sem samanlagt hljóða upp á nærri 100 milljónir norskra króna eða um einn og hálfan milljarð íslenskra króna.

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Lögreglan með mynd eftir Werner Jensen

Hætt við að eyðileggja myndirnar

John Erik hefur viðurkennt að ferilskrá Jensens sé ekki að öllu leyti rétt. Hins vegar hafi kaupendur fengið að svör við öllum spurningum um Jensen. Enginn hafi til dæmis spurt um hvort um listamannsnafn eða dulnefni væri að ræða.

Lögreglan lýsti því yfir að myndirnar yrðu eyðilagðar. Margir hafa gagnrýnt að það standi til. Sérfræðingar í Noregi hafa bent á að það sé beinlínis ólöglegt athæfi að eyðileggja myndirnar. Það sé ekki ólöglegt að mála myndir undir dulnefni. Það sé hins vegar mögulega saknæmt að hafa gefið kaupendum rangar upplýsingar um gangverð myndanna.

Lögreglan í Noregi hefur dregið fyrri yfirlýsingar til baka um að myndirnar verði eyðilagðar. Það verði ekki gert en hugsanlegt sé að lagt verði hald á þær ef dómur fellur. Einhverjir telja að myndirnar eigi eftir að verða eftirsóttar þegar fram líða stundir.

Fyrrverandi menningarmálaráðherra Noregs Trine Skei Grande tvítaði um málið og sagði kannski í gríni. Er það bara ég sem sem held að það væri svalt að eiga mynd eftir Werner Jensen?

Breytti nafninu!

Galleríeigandinn og í raun sjálfur listamaðurinn er alls ekki sáttur við að myndirnar verði settar á bálið. Það væru tíðindi á árinu 2021. Og kannski til að stríða yfirvöldum hefur hann breytt nafninu sínu. Samkvæmt norsku þjóðskránni heitir hann nú: John Erik Werner Jensen Hedemark.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV