Krefjast ógildingar á úrskurði kærunefndar

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Mál nígeríska hælisleitandans Uhunoma Osayomore gegn íslenska ríkinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Krafist er ógildingar á úrskurði kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingamálastofnunar þess efnis að synja honum um alþjóðlega vernd fyrr í mánuðinum.

Ríkið hefur frest til 29. júní til að leggja fram greinargerð í málinu en ekki liggur fyrir hvort Osayomore fái að dvelja hér á landi á meðan á málinu stendur.

Stefnan byggir fyrst og fremst á því að Osayomore hafi á engu stigi málsins fengið málsmeðferð sem fórnarlamb mansals þrátt fyrir að upphafleg frásögn hans hjá Útlendingastofnun hafi gefið sterklega til kynna að svo væri.

„Þetta mál er eitt margra síðustu misseri þar sem fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis er synjað um vernd hér á landi. Það er ákaflega sorgleg þróun og ekki í takt við þær áherslur stjórnvalda á mannréttindi og vernd þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi,“ segir Magnús D. Norðdahl, lögmaður hans, í skriflegu svari.

Í stefnunni er gagnrýnt harðlega að kærunefnd útlendingamála hafi dregið trúverðugleika Osayomore í efa og hann látinn gjalda þess að hafa á fyrri stigum hjá Útlendingamálastofnun einungis greint frá sumum en ekki öllum þeim tilvikum sem hann var seldur mansali í lífi sínu. Þá byggi kærunefnd útlendingamála á upplýsingum úr fölsku vegabréfi sem gerendur í mansalsmálinu nýttu til að koma honum til Bretlands á tíma.

„Það er alþekkt og mjög skiljanlegt að mansalsfórnarlömb eiga erfitt með að greina frá öllum áföllum sínum og því er mælst til þess að fagaðilar stýri viðtölum við svo viðkvæma hópa. Sú var ekki raunin, hvorki hjá Útlendingastofnun né hjá kærunefnd útlendingamála. Stefnandi hefur hins vegar að eigin frumkvæði sótt viðtalsmeðferð hjá Stígamótum,“ segir Magnús.

„Á heildina litið er það mitt álit að málsmeðferðarbrot stjórnvalda í máli Uhunoma Osaymore séu það alvarleg og víðtæk að héraðsdómi sé ekki stætt á öðru en að ógilda úrskurð kærunefndar útlendingamála,“ segir hann.