Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hertar aðgerðir ekki áfall fyrir ferðaþjónustuna

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Ferðamálaráðherra segir að hertar aðgerðir á landamærum valdi ekki miklum skaða hjá ferðaþjónustunni. Dómsmálaráðherra segir breytingar á litakóðunarkerfi skapa eins mikinn fyrirsjáanleika og unnt sé.

Ríkisstjórnin kynnti í dag hertar aðgerðir á landamærunum. Fólk sem kemur hingað frá Póllandi, Hollandi, Frakklandi og Ungverjalandi verður skikkað í fimm daga sóttkví í sóttvarnahúsi. Þá verða þeir sem koma frá löndum þar sem fleiri en 750 smit eru á hverja hundrað þúsund íbúa einnig að vera á sóttkví í sóttvarnahúsi nema þeir fái sérstaka undanþágu. 

Stefnt er að því að dómsmálaráðherra fái heimild til að banna ónauðsynlegar ferðir fólks hingað til lands frá löndum þar sem ný smit eru fleiri en þúsund á hverja hundað þúsund íbúa.  

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir þessar hertu reglur á landamærunum hafi ekki mikil áhrif á ferðaþjónustuna. 

„Ferðaþjónustan er í raun að sækja fram og ferðaviljinn er að aukast hvar mest í þeim löndum þar sem bólusetningar ganga mjög vel. Þar liggja tækifærin og það hefur í raun verið þannig frá því ákvörðun var tekin um að bólusettir einstaklingar utan Schengen geti komið hingað hindrunarlaust fyrir utan skimun á landamærum. Þannig að ég held að sumarið og næstu vikur og mánuðir, þar séu ýmis tækifæri fyrir ferðaþjónustuna í því.  Þannig að ég held að þessi dagur í dag sé ekki áfall fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir Þórdís.

 

Jafnframt var ákveðið í dag að fresta um mánuð innleiðingu litakóðunarkerfis en það gengur út á fólk sem kemur frá löndum þar sem lítið er um smit sleppur við fimm daga sóttkví. Þá ætla stjórnvöld að gera sitt eigið áhættumat á löndum.

Eru það vonbrigði að ekki var hægt að innleiða litakóðunarkerfið eins og til stóð?

„Ég held að þessi útfærsla sé góð. Ég held að þessi ráðstöfun sýni fram á sveigjanleika og eins mikinn fyrirsjáanleika og við getum skapað. Við vitum auðvitað það að staðan breytist núna um hver mánaðamót talsvert mikið,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.