Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Græn fátækt er framtíðin

Mynd: ICAN / Flickr

Græn fátækt er framtíðin

20.04.2021 - 15:33

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur fjallar um The Great Reset, stóru endurræsinguna, og eftirplágusamfélagið.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Yfirskrift efnahagsráðstefnunnar í Davos árið 2021 er „The Great Reset“ eða stóra endurræsingin. Í Davos, alpaþorpi í Sviss, hittist í stuttu máli árlega alþjóðlegur elítuhópur 3.000 viðskiptajöfra, stjórnmálaleiðtoga, hagfræðinga, poppstjarna og blaðamanna og ræðir saman um það hvernig megi mjaka heiminum í átt betri tíðar. Eða þannig lýsir Davos sjálfu sér öllu heldur. Sýnískari og vissulega að mínu mati raunsærri lýsing væri að segja að í Davos gefi alþjóðleg stétt milljarðamæringa, þeir sem í alvörunni stjórna heiminum, stjórnmálaleiðtogum fyrirmæli um það hver stefnan eigi að vera næsta árið. 

Öll skilaboð Davos út á við eru í takt við það sem hver einasta manneskja getur sagt sér sjálf. Þetta eru geislandi bjartsýnisáköll um mikilvægi þess að bjarga plánetunni, berjast fyrir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og gegn misskiptingu auðs, fátækt, hungursneyð og svo framvegis, allt saman skreytt myndum af brosmildu fólki á strönd í sólarlagi, glæstum heimsborgum að nóttu til, fallegum ávöxtum, auk þess sem snyrtilega og af mikilli fagmennsku er tikkað í öll þau box sem ríkjandi hugmyndatíska hverju sinni æskir. 

Og yfirskriftin á covid-tímum er þessi frasi um endurræsinguna miklu. Hér er átt við að heimurinn sé svolítið eins og frosin leikjatölva og það sé kominn tími til að ýta á reset-takkann og blása í hulstrið. Heimurinn í heild sinni þurfi nýtt upphaf eftir covid-faraldurinn en sömuleiðis þurfi plánetan svolítið á endurræsingu í umhverfismálum að halda eins og líka hagkerfi heimsins. Ríki heims eru núna orðin svo ævintýralega skuldsett að við blasir að þessar skuldir verða aldrei greiddar til baka og þar er komin önnur ástæða til þess að fara á fjóra fætur, skríða að tölvunni og finna reset-takkann. 

Sótthreinsuð, allslaus, örugg

Spurningin er þá hvað þessi endurræsing mun hafa í för með sér og hvernig lífið verður eftir hana. Að undanförnu hafa margir rifjað upp nokkurra ára gamalt alræmt myndband frá stofnuninni sem heldur utan um efnahagsráðstefnuna í Davos. Þar voru birtir átta spádómar til ársins 2030. Fyrsti spádómurinn um það hvernig lífið verður þá var svohljóðandi: „Þú munt ekki eiga neitt og þú verður hamingjusöm.“ Síðan fylgdu lýsingar á því hvernig við munum öll leigja allt sem við þurfum árið 2030 og fá það síðan sent heim með drónum. Eitthvað segir manni að þessi drón muni þá svífa til manns úr mannlausri Amazon-verksmiðju þar sem allt er sótthreinsað og vélrænt. 

Þetta fékk mig til þess að hugsa til þess þegar félagi minn sagði mér frá því um daginn hvernig hann fylgdist með starfsmanni bakarís þvo hendur sínar eins og hann hefði fengið yfir sig geislavirkan úrgang eftir að hafa tekið við alvöru seðli úr hendi félaga míns fyrir ostaslaufu. Mannleg snerting og þar með nærvera er nú orðin að viðvarandi hættu og fjárhagslegu hagsmunirnir sem felast í því að viðhalda þessum ótta eru augljósir, alveg eins og átti til dæmis við um stríðið gegn hryðjuverkum í upphafi aldarinnar. 

Það fylgdi ekki sögunni hver mun eiga allt þegar við verðum allslaus og hamingjusöm árið 2030. Svarið við því liggur hins vegar í augum uppi: Það verður fólkið sem bjó til myndbandið.

Vænsýki er hvítlaukurinn í eldhúsi lífsins

Ég las einu sinni gott kvót í bandaríska rithöfundinn Thomas Pynchon, sem ekki hefur sést á ljósmynd í hálfa öld eða svo. Tilvitnunin er svona: „Paranoia is the garlic in life’s kitchen. You can never have enough.“ Eða: „Vænisýki er hvítlaukurinn í eldhúsi lífsins. Þú getur aldrei haft of mikið af henni.“

Þessi pæling um endurræsinguna miklu hefur vakið talsverðan ugg, einhver kynni að segja vænisýki eða ofsóknarbrjálæði, hjá ólíkum þjóðfélagshópum. Þeir óttast að þegar valdamesta fólk í heiminum, milljarðamæringarnir í Davos og pólitískar hjálparhellur þeirra, sér, eins og það hefur verið orðað, „einstakt tækifæri í heimsfaraldri til þess að endurræsa heiminn“, þá muni það fyrst og fremst felast í því að endurstilla efnahagslegar forsendur heimsins þannig að það vænki hag þeirra sjálfra, til dæmis með því að svipta almenning öllum eignum og leigja fólki síðan allt sem það þarf með aðstoð sjálfvirkra dróna, allt saman undir því yfirskini að þetta sé umhverfisvænt, öruggt og sótthreinsað og í harmóníu við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Já, það besta við fátækt er hvað hún er græn. Það er yfirleitt ríkt fólk, hin umhverfismeðvitaða rafbílaborgarastétt, sem er hvað uppteknust af því að segja öðru fólki hvernig það á að haga sér í umhverfismálum og þessi tilhneiging nær svo lógísku hámarki sínu í Davos, þar sem auðkýfingar fljúga á kolefnisjöfnuðum einkaþotum til Sviss til þess að þykjast tala um plánetuhjálpræði. 

En eru það ekkert nema samsæriskenningar og óþarfa vænisýki að hafa áhyggjur af því hvers konar heimur mun verða til eftir faraldurinn eða þeirri staðreynd að valdamesta fólkið sér í honum einstakt tækifæri til þess að ýta á endurræsingarhnappinn? Eins og víða hefur komið fram hefur misskipting auðs aukist mikið síðan faraldurinn hófst og er þá mikið sagt. Þá þarf ekki að vera þjakaður af neitt sérstaklega miklu ofsóknarbrjálæði til þess að sjá að tæknirisar og alþjóðleg eftirlitsfyrirtæki munu nýta faraldurinn til þess að seilast lengra inn í einkalíf okkar undir því yfirskini að snertilaus, stafræn tækni sé ekki lýðheilsuógn öfugt við til dæmis fólk með seðla inni í bakaríi. Hörmungar og hamfarir hafa áður verið notaðar til þess að koma á breytingum í þágu alþjóðlegs stórkapítalisma eins og Naomi Klein hefur fjallað vel um í bók sinni um Shock Doctrine. Stríðinu gegn hryðjuverkum fylgdi meiriháttar breiðusíðuárás á persónufrelsi fólks og einkalíf. Hið sama mun gerast núna, ekki síst í ljósi þess að óttinn er margfalt meiri í þetta sinn.

Mannréttindi sem forréttindi

Ég velti þessu upp núna ekki síst í ljósi þess að maður verður sífellt meira var við það að talað sé um mannréttindi fólks eins og forréttindi. Sú var tíðin þegar lögfesting slíkra réttinda þótti ekki aðeins meiriháttar framfaraskref heldur mikilvægur vitnisburður um það hvers mannsandinn er megnugur. Síðustu ár hefur verið algengt að talað sé um tjáningarfrelsi eins og það feli fyrst og fremst í sér úreltan og ofbeldisfullan rétt miðaldra hvítra karlmanna til þess að spúa fordómum sínum eða hatri yfir aðra. Þetta birtist hvergi skýrar en í þeirri ákvörðun að loka á helsta samskiptatól fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem fékk 75 milljónir atkvæða í síðustu kosningum.

Hér á landi hefur síðan borið talsvert á því í umræðunni að það eigi hreinlega að loka landinu og einangra það fyrir öllum þeim sem gætu mögulega borið hættuna hingað heim, hvort sem það eru gosþyrstir ferðamenn eða nauðstaddir í leit að betra lífi, og jafnframt sé það eiginlega hálffáránlegt að það sé einhver löggjöf að þvælast fyrir því hvernig yfirvöld geta nauðungarvistað fólk í þágu sóttvarna. Maður fær á tilfinninguna að það sé hreinlega útbreidd skoðun að stjórnarskrárbundin réttindi og mannréttindasáttmáli Evrópu séu meiriháttar klaufaskapur. 

Það sem mér finnst kannski einna mest ógnvekjandi sjálfum er hversu sjálfsagt yfirvöldum hér á landi sem og annars staðar virðist finnast það að standa fyrir mestu mannréttindaskerðingum lýðveldissögunnar. Það eru ekki settir neinir fyrirvarar eða því nokkurs staðar lýst yfir að skerðing mannréttinda sé reyndar mjög alvarlegt mál og að slíkum undantekningum verði aflétt eins hratt og örugglega og auðið er þegar ástandið leyfir, að mikilvægt sé að viðhalda hér samfélagi eftir plágu sem er opið, frjálst og frjálslynt, og stýrist ekki af ótta, harðstjórn og umburðarleysi og svo framvegis. Það ber ekki á neinu slíku.

Það efast enginn um að það er göfugt að reyna að eftir fremsta megni að kveða niður eiturpláguna. Það eru allir að gera sitt besta hérna. En það þarf líka að hafa í huga að frjálslynd og opin samfélög eru ekki frjálslynd og opin vegna þess að það er kveðið á um það í lögum, heldur vegna þess að það er kúltúr og hefð fyrir því að þau séu opin og frjáls, kúltúr og hefð sem síðan kristallast í lögunum sem þau setja sjálfum sér. Þess vegna er ekki aðeins hægt að horfa á þetta mál sem eitt einstakt tilvik heldur þarf að sjá það sem hluta af stærra samhengi og lengri sögu þar sem nýtt fordæmi hefur verið sett. Hver veit svo hvernig það verður svo nýtt í framtíðinni, já hinni endurræstu framtíð þar sem við eigum ekki neitt og erum hamingjusöm. Það skyldi þó ekki vera að þetta verði ekki bara framtíðin sem við fáum, heldur líka sú sem við viljum.

 

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Draumur um krossfestingu

Pistlar

Við erum ekki öll almannavarnir

Pistlar

„Farsæld lifandi manns er ekki til“

Pistlar

Lifðu í heilbrigðri óskynsemi