Furða sig á að ekki sé hægt að fjárfesta í íþróttafólki

Mynd: RÚV / RÚV

Furða sig á að ekki sé hægt að fjárfesta í íþróttafólki

20.04.2021 - 22:01
Íslenskt afreksíþróttafólk sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem kallað er eftir hjálp stjórnvalda við að móta heildstæða stefnu í afreksíþróttum hér á landi. Eitt og hálft ár er síðan hópurinn sendi mennta- og menningarmálaráðherra fyrst bréf vegna málsins.

Yfirlýsingin, sem er fyrir hönd íslensks afreksíþróttafólks, er undirrituð af sundmanninum Antoni Sveini McKee, Guðlaugu Eddu Hannesdóttir, þríþrautarkonu, og hlauparanum Hlyni Andréssyni.

Þar kemur fram að íslenskt afreksíþróttafólk hafi beðið lengi með von í hjarta um að stjórnvöld myndu beita sér fyrir því að móta heildstæða stefnu í afreksíþróttum á Íslandi.

„Við kannski getum bara unnið 20 tíma á viku vegna æfinga og missum þá út hina 20 tímana og við viljum svolítið sjá meira frá Ólympíusambandinu og Ríkisstjórn Íslands. Við erum góðar fyrirmyndir fyrir yngri kynslóðina og mér finnst skrýtið að það sé ekki hægt að fjárfesta í okkur,“ sagði Hlynur í samtali við RÚV í dag.

Í yfirlýsingu hópsins segir að nú sé eitt og hálft ár liðið frá því Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi verið afhent bréf um að bæta þyrfti afreksstefnu Íslands í íþróttum. Enn hafi ekkert verið aðhafst í kjara- og réttindamálum afreksíþróttafólks.

Hlynur er nú staddur í æfingaferð í Lúxemborg en hann er búsettur í Hollandi og segir Ísland koma afar illa út í samanburði við afreksstefnu annarra þjóða. Hlynur

„Aðrar þjóðir hafa fundið lausn á málinu, t.d. í Póllandi er afreksíþróttafólk bara skráð í herinn og er því á launum eins og atvinnumenn. Ef aðrar þjóðir geta fundið lausn á þessu ætti Ísland að geta það líka,“ sagði Hlynur að lokum.