Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Funda um WOW skýrslu

20.04.2021 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: Marvin Mutz - Wiki Commons CC-BY-SA
Fulltrúar Ríkisendurskoðunar hafa verið boðaðir á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag klukkan 9 til að ræða skýrslu embættisins um fall Wow Air. Ríkisendurskoðun telur að Samgöngustofa hafi brugðist eftirlitshlutverki í aðdraganda gjaldþrots félagsins árið 2019.

Trúnaður hefur ríkt um innihald skýrslunnar sem þó var lekið til fjölmiðla í síðustu viku. Í skýrslunni er Samgöngustofa harðlega gagnrýnd og hvernig staðið var að eftirliti með fjárhagsstöðu WOW. Þá hafi Samgöngustofa tekið viðskiptalega hagsmuni flugfélagsins fram yfir eftirlitið.

Stjórnvöld fóru að fylgjast betur með rekstri WOW air haustið 2018. Sérstök ráðherranefnd samdi viðbragðsáætlun og ræddi stöðu félagsins á fimmtán fundum.

Samgöngustofa er sögð hafa veitt samgönguráðuneytinu misvísandi upplýsingar um það hvernig eftirlitinu var háttað og líka eftir að ráðuneytið óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um málið. Þetta telur ríkisendurskoðun hafi verið sérstaklega ámælisvert. Ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni.

Skýrslan verður væntanlega gerð opinber í dag en Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur ekki tjáð sig um málið hingað til.