Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin sátt í tylft mála hjá Mannréttindadómstól Evrópu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engin sátt hefur náðst í tólf af átján málum gegn íslenska ríkinu sem til umfjöllunar eru hjá Mannréttindadómstóli Evrópu og byggð eru á sömu málsástæðum og Landsréttarmálið svonefnda og því líklegt að þau verði tekin til efnislegrar meðferðar við dómstólinn.

Fréttablaðið greinir frá þessu. Mannréttindadómstóllinn setti málin í sáttaferli í lok síðasta árs. Í erindi dómstólsins til ríkslögmanns og kærenda málanna á sínum tíma kom fram að ef ekki næðust sættir í málinu yrðu þau tekin til efnismeðferðar og dæmd á grunni fyrirliggjandi dóms yfirdeildar í Landsréttarmálinu. Óskað var eftir lengri fresti og var hann veittur, en hinn framlengdi frestur rennur út á hádegi í dag.

Fréttablaðið hefur eftir Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni að engin sátt hafi náðst í minnst tólf þessara mála. Allt eru það sakamál sem dæmd voru í Landsrétti af einhverjum þeirra fjögurra Landsréttardómara sem ekki voru skipaðir með lögmætum hætti, samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstólsins, sem staðfestur var af yfirdeild hans. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV