Engin ákvörðun hefur verið tekin hér á landi um Janssen

20.04.2021 - 18:48
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort eða hvenær bólusett verði með bóluefni Janssen hér á landi. Þetta kemur fram í svari Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Dreifingu bóluefnisins í Evrópu var frestað á dögunum eftir að tilkynnt hafði verið um átta tilfelli blóðtappa eftir bólusetningu í Bandaríkjunum. Þar af var ein manneskja sem lést. Sjö milljónir hafa verið bólusett með Janssen í Bandaríkjunum, en fáir höfðu fengið efnið í Evrópu þegar dreifing var stöðvuð.

Sérfræðinganefnd á vegum Lyfjastofnunar Evrópu hefur síðan rannsakað möguleg tengsl bólusetningar með Janssen, sem er frá lyfjafyrirtækinu Johnson&Johnson, við blóðtappa. Tengslin eru möguleg, samkvæmt rannsókn sérfræðinganna. Niðurstaðan var tilkynnt á fréttamannafundi í dag.

FILE - This Saturday, March 6, 2021 file photo shows vials of Johnson & Johnson COVID-19 vaccine in the pharmacy of National Jewish Hospital for distribution in east Denver. The European Medicines Agency is meeting Thursday March 11, 2021, to discuss whether Johnson & Johnson’s one-dose coronavirus vaccine should be authorized, a move that would give the European Union a fourth licensed vaccine to try to curb the pandemic amid a stalled inoculation drive. (AP Photo/David Zalubowski, File)
 Mynd: AP

Hvert ríki ákveður hvort og hvernig bólusetningu með Janssen verður háttað. Skammtar sem komu hingað til lands fyrr í mánuðinum hafa verið í geymslu. Miklar vonir hafa verið bundnar við bóluefnið því aðeins þarf að gefa einn skammt. 

Lyfjastofnun Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skrá ætti blóðtappa sem afar sjaldgæfa aukaverkun bóluefnisins. Flest voru tilfellin hjá konum yngri en sextugt og á fyrstu þremur vikum eftir bólusetningu. Stofnunin leggur áherslu á að tilfellin séu mjög sjaldgæf.