Eldisleyfi líklega boðin út í Mjóafirði

20.04.2021 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: visitfjardabyggd.is
Eldisleyfi verða líklega boðin út í Mjóafirði á Austfjörðum. Sjávarútvegsráðherra hefur beðið Hafrannsóknastofnun um að gefa út hve mikið eldi fjörðurinn þolir en bæði Laxar fiskeldi og Fjarðabyggð vilja að eldi í firðinum.

Fiskeldi var reynt í Mjóafirði fyrir mörgum árum en þar hefur ekkert eldi verið um skeið. Mikil aukning hefur hins vegar verið í fiskeldi á Austfjörðum á síðustu árum og vilja Laxar fiskeldi nú láta á það reyna hvort þeir fái eldisleyfi í Mjóafirði. Fyrirtækið elur lax bæði í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði en ólíklegt er að Mjóifjörður ráði við álíka magn enda minni. Hafrannsóknastofnunin á eftir að gefa út burðarþolið og gerir líka áhættumat vegna hættu á blöndun við villta laxastofna en jafnvel gæti fjörðurinn ráðið við 8-13 þúsund tonn.

Sjávarútvegsráðherra hefur upplýst svæðisráð sem vinnur strandsvæðaskipulag fyrir Austfirði um áformin. Eldið heyrir undir ný lög um fiskeldi og því verður nýting á mögulegum eldisvæðum í Mjóafirði boðin út. 

„Ég tel að þetta séu gríðarlega mikil tækifæri bæði fyrir brothætta byggðina í Mjóafirði og svæðið í heild hér fyrir austan. Sveitarfélagið hefur verið að þrýsta á um að Mjóifjörður fari í útboð þannig að það er bara mikið fagnaðarefni að þessi vinna sé hafin,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis. 

Fyrir nokkrum árum herjuðu marglyttur á eldi í Mjóafirði og var því hætt. Jens Garðar óttast ekki að slíkt endurtaki sig. „Það hefur orðið mikið framþróun í bæði tækni og vöktun þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV