Eldgos og gróðurhúsalofttegundir

20.04.2021 - 10:53
Mynd: Gísli Berg / RÚV
„Það er nokkurn veginn föst regla að í hvert sinn sem eldgos hefst á Íslandi fer fólk að velta fyrir sér hvort eitt svona eldgos losi ekki miklu meira af gróðurhúsalofttegundum en við sem byggjum þetta land, með öllum okkar púströrsbílum, álverum og framræstu votlendi – og hvort að aðgerðir til að draga úr losun séu þá ekki algjörlega tilgangslausar við hliðina á þessum ósköpum. Stutta svarið við báðum þessum spurningum er „nei“ – með stóru N-i,“ segir Stefán Gíslason í umhverfispistli.

 

Stefán Gíslason flutti umhverfispistil í Samfélaginu á Rás 1:

Mengun og eldgos

Það er nokkurn veginn föst regla að í hvert sinn sem eldgos hefst á Íslandi fer fólk að velta fyrir sér hvort eitt svona eldgos losi ekki miklu meira af gróðurhúsalofttegundum en við sem byggjum þetta land, með öllum okkar púströrsbílum, álverum og framræstu votlendi – og hvort að aðgerðir til að draga úr losun séu þá ekki algjörlega tilgangslausar við hliðina á þessum ósköpum. Stutta svarið við báðum þessum spurningum er „nei“ – með stóru N-i. Á hverju ári losar mannkynið að meðaltali 80-300 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en öll heimsins eldfjöll – og auk þess eru eldgos bara hluti af náttúrulegum sveiflum sem hafa alltaf verið til staðar og koma aðgerðaáætlunum í loftslagsmálum og baráttunni gegn loftslagsbreytingum hreint ekkert við.

Vissulega geta eldgos valdið loftslagsbreytingum til skamms tíma, en þá frekar til kólnunar en hlýnunar. Í stórum hamfaragosum, eins og t.d. í Skaftáreldum seint á 18. öld, berst mikið af ösku og brennisteinssamböndum út í andrúmsloftið, sem hvort um sig og sameiginlega getur heft för sólargeisla til jarðar og þar með valdið tímabundinni kólnun. Oft er t.d. vitnað til harðinda í Evrópu í kjölfar Skaftáreldanna og því hefur m.a. verið haldið fram að þessi harðindi hafi ýtt undir frönsku byltinguna 1789. Stærsti áhrifavaldurinn í þessu er brennisteinsdíoxíð sem losnar í miklum mæli í stórum gosum og er einmitt eitt helsta áhyggjuefnið í umræðunni um gasmengun frá yfirstandandi gosi á Reykjanesskaga. Brennisteinsdíoxíðið hvarfast við efni úr andrúmsloftinu og þannig myndast brennisteinssýra sem bæði orsakar súrt regn og hefur tilhneigingu til að mynda úða eða móðu sem heftir för sólargeislanna og veldur þannig kólnun. Eldgosið í Pinatubo á Filippseyjum árið 1991 er stærsti atburðurinn af þessu tagi síðustu 100 árin, en meðalhitastig á jörðinni var u.þ.b. hálfri gráðu á Celsius lægra en ella í þrjú ár eftir gosið. Að öllum líkindum voru kólnunaráhrifin þó enn meiri eftir gosin í indónesísku eldfjöllunum Krakatau 1883 og Tambora 1815, að ógleymdum Skaftáreldunum nokkrum áratugum fyrr.

Dæmi um kólnun loftslags vegna eldgosa eru sem sagt vel þekkt, en hins vegar eru engin dæmi um hlýnun, jafnvel þótt talsvert magn af koldíoxíði losni líka frá eldgosum. Þetta talsverða magn er nefnilega mjög lítið í heildarsamhenginu. Nánar tiltekið áætlar Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna að á hverju ári losni að meðaltali á bilinu 0,13-0,44 gígatonn af koldíoxíðígildum frá öllum eldfjöllum í heiminum. Það er auðvitað alveg hellingur út af fyrir sig, því að eitt gígatonn er jú þúsund milljón tonn. En 0,13-0,44 gígatonn eru samt ekki stór þegar þau eru borin saman við þau 35-40 gígatonn sem losna af mannavöldum á hverju ári. Losun frá eldfjöllum er sem sagt einhvers staðar á bilinu 1/80-1/300 af því sem mannkynið losar með eigin athöfnun, eða í mesta lagi eitthvað um 1%. Það tekur mannkynið sem sagt ekki nema einn til fjóra sólarhringa að losa jafnmikið af gróðurhúsalofttegundum og öll eldfjöll heimsins gera á heilu ári.

Eldgos og alþjóðasamningar

Og fyrst ég minntist áðan á gosið í Pinatubo 1991, þá er kannski ekki úr vegi að skoða koldíoxíðlosunina frá því í þessu sama samhengi. Hún er talin hafa verið um 0,05 gígatonn, sem þýðir að losunin frá okkur sjálfum, þ.e.a.s. losun af mannavöldum, jafngildir því að 700-800 Pinatubo-gos væru alltaf í gangi. Losunin frá Pinatubo var ekki meiri en svo að hún sést ekki á línuriti sem sýnir styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Samt var þetta stærsta gos síðustu áratuga.

Svona rétt í lokin er ástæða til að rifja upp, að jafnvel þótt losun gróðurhúsalofttegunda frá eldgosum væri margfalt meiri en raun ber vitni, þá skiptir hún í raun engu máli í loftslagsumræðu samtímans. Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, Kýótó-bókunin, Parísarsamningurinn, markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland, aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum – og hvað þetta heitir nú allt saman, snýst alfarið og eingöngu um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Að grunni til er loftslagið háð náttúrulegum sveiflum sem hvorki einstakir pistlahöfundar, stjórnvöld í einstökum ríkjum eða Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafa nokkur einustu áhrif á. Hins vegar hafa allir þessir aðilar, og yfirleitt allar Gunnur og allir Jónar þessa heims, heilmikið um það að segja hvort þær loftslagsbreytingar sem vér mennirnir bætum við þessar náttúrulegu með okkar eigin gjörðum haldist innan þeirra marka sem gera barnabörnunum okkar mögulegt að lifa sæmilegu lífi á þessari jörð. Um það fjalla alþjóðasamningarnir, markiðin og aðgerðaáætlanirnar.

Barnabörnin okkar eiga allt sitt undir því að allar Gunnur og allir Jónar þessa heims hafi kjark til að breyta því sem þau geta breytt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, æðruleysi til að sætta sig við það sem þau geta ekki breytt, t.d. eldgos, og síðast en ekki síst vit til að greina þar á milli.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður