Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Djörf yfirlýsing en lengi kallað eftir henni

20.04.2021 - 20:25
Mynd: RÚV / RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir yfirlýsing stjórnvalda um að öllum takmörkunum verði aflétt þegar meirihluti fullorðinna verður kominn með fyrri skammt bóluefnis sé djörf en hann hafi lengi kallað eftir slíkri yfirlýsingu. Hann segir fyrri skammtinn duga sem vörn gegn alvarlegri veikindum og það sé væntanlega bara tímabundið að fólk sé bara með fyrri skammtinn.

Takmarkið í bólusetningum gæti náðst strax í byrjun júní og það er því hugsanlegt að öllum takmörkunum verði aflétt eftir einn og hálfan mánuð.

„Á einhverjum tímapunkti þarf að slaka á og þetta er bara ágætis yfirlýsing,“ sagði Þórólfur í Kastljósinu í kvöld. Fyllsta ástæða væri til að vera bjartsýnn á að hægt væri bólusetja fleiri og hraðar en reiknað hafði verið með því það væri að koma meira bóluefni en búist hafði verið við. Það þyrfti þó að hafa í huga að staðan gæti alltaf breyst.

Þórólfur er einnig sáttur við þær aðgerðir sem kynntar voru á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Hann hefði ekki séð endanleg drög að frumvarpinu en þetta væri í takti við það sem hann hefði talað um. „Að fá heimildir til að setja fólk frá löndum þar sem smit eru útbreidd í sóttvarnahús.“

Hann sagðist ekki telja að of mikið væri gefið eftir. Fjögur lönd í Evrópu væru með svæði þar sem smit væru 1.000 á hverja hundrað þúsund íbúa og enn fleiri þar sem nýgengið væri á bilinu 750 til 1.000. Þá sagðist hann telja að heimild dómsmálaráðherra til að banna ferðir frá há-áhættusvæðum yrði aðeins beitt í undantekningartilvikum.

Þórólfur ræddi einnig stöðuna innanlands og sagði að ef smitum færi að fjölga í dag og á morgun gæti þurft að grípa til harðari aðgerða innanlands og mögulega í skólum landsins.  Þar yrðu leikskólarnir ekki undanþegnir.

Þórólfur virtist einnig bjartsýnn á að hægt yrði að nota bóluefni Janssen eftir tilmæli frá Lyfjastofnun Evrópu í dag. Þá upplýsti hann að hann hefði verið boðaður tvívegis í bólusetningu sem heilbrigðisstarfsmaður en afþakkað í bæði skiptin og þar með hlýtt eigin fyrirmælum. „Ég vona að aldurinn fari að hjálpa til og býst við að fá AstraZeneca. Ég þigg það með glöðu geði.“ 

Viðtalið í heild er hægt að sjá hér að ofan.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV