Allir sem koma frá há-áhættusvæðum í sóttkvíarhús

20.04.2021 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Allir farþegar frá löndum sem eru með þúsund smit á hverja hundrað þúsund íbúa þurfa að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli. Farþegar frá löndum með 750 smit á hverja hundrað þúsund íbúa þurfa einnig að vera á sóttkvíarhóteli en geta sótt um undanþágu ef þeir geta sýnt fram á viðeigandi aðstæður heimafyrir. Dómsmálaráðherra fær heimild til að banna ónauðsynleg ferðalög frá löndum þar sem nýgengi er þúsund smit eða hærra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði eftir fundinn að farþegar frá fjórum Evrópulöndum þyrftu samkvæmt þessu að fara í sóttkvíarhús; Hollandi, Frakklandi, Póllandi og Ungverjalandi. Þar eru þúsund smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur.

Þegar reglugerðin um sóttkvíarhótelið kom fyrst fram í lok mars voru áhættusvæðin bundin við nýgengi upp á 500 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur.  Allir sem komu frá þeim löndum þurftu að vera á sóttkvíarhóteli milil fyrri og seinni sýnatökunnar.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkutíma fyrir blaðamannafundinn og lagði lokahönd á tillögurnar. Fundurinn tafðist því aðeins en ráðherrarnir lögðu á það áherslu að full samstaða væri um aðgerðirnar.  

Þær fela meðal annars í sér að umdeildu litakóðunarkerfi verður frestað til 1. júní en það átti að taka gildi eftir tíu daga.  Stjórnvöld ætla að kynna sér-íslenskt litakóðunarkerfi þann 7. maí þar sem lagt verður mat á áhættu eftir svæðum.

Von er á lagafrumvörpum varðandi þessar breytingar í kvöld og Katrín batt vonir við að þau yrðu afgreidd á Alþingi á morgun, ekki síst í ljósi þess að háværar kröfur hefðu heyrst frá þingmönnum um þörfina á hertari aðgerðum á landamærunum vegna útbreiðslu smita innanlands.

Smitin  hafa verið rakin beint til farþega sem virtu sóttkví að vettugi við komuna til landsins og eru lögreglurannsókn hafin á þeim brotum.  Og sóttvarnalæknir hefur viðrað þann möguleika að  herða þurfi aftur aðgerðir innanlands eftir að slakað var á þeim fyrir skömmu.

Það var því þungt hljóðið í fjármálaráðherra þegar hann ávarpaði fjölmiðla í upphafi fundarins. Hann sagði það mikil vonbrigði að afar fámennur hópur gæti valdið jafn mikilli röskun og því væri nauðsynlegt að bregðast við. Þessi brot hefðu veruleg áhrif á daglegt líf og kostuðu líka stjórnkerfið heil ósköp við að ná utan um útbreiðsluna.

Bjarni sagði við fréttastofu eftir fundinn að samstaða hefði verið um þessar aðgerðir í ríkisstjórninni. Hann vildi ekki tala fyrir hönd þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sumir hverjir verið gagnrýnir á þessar aðgerðir en benti á að sú gagnrýni hefði eingöngu falist í því hvort viðhlítandi lagastoð hefði verið fyrir þeirri reglugerð.

Bjarni sagði skilaboðin vera skýr, að meðan náð yrði útbreiðslu bóluefnis innanlands yrðu mjög stífar aðgerðir á landamærunum. Hvar nákvæmlega mörkin yrðu ætti eftir að koma í ljós. „Við höfum reynslu af allt of mörgum sóttkvíarbrotum og mörgum smitum sem rakin eru til landa þar sem smit eru útbreidd.“ Því yrði sjónum beint að þeim löndum og ónauðsynlegar ferðir frá þessum löndum bannaðar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði þessar aðgerðir nauðsynlegar en tók líka fram að þær væru til skamms tíma á meðan væri að ná frekara ónæmi með bólusetningu. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV