Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yfir 20 kórónuveirusmit greindust í gær

Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
Rúmlega 20 smit greindust innanlands í gær. Þetta sagði Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID-19 göngudeildar Landspítalans í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann leggur áherslu á að tölurnar séu ekki staðfestar og vonast til að meiri hlutinn hafi verið í sóttkví þegar hann greindist.

„Því miður greindust allmörg smit til viðbótar í gær, yfir 20, en það á eftir að fá staðfestar tölur um það og eins hvort þessir einstaklingar voru í sóttkví, sem ég vonast til að hafi verið að stórum hluta.“

Hvað eigum við að lesa í þetta, hver er eiginlega staðan? „Þetta er stór hópsýking og hún getur hæglega breiðst út og orðið miklu stærri,“ segir Runólfur.  

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og landlæknir boða til upplýsingafundar klukkan 11. Hann verður í beinni útsendingu í sjónvarpi, útvarpi og hér á vefnum. 

Hægt er að hlusta á viðtalsbrot úr Morgunútvarpinu í spilaranum hér fyrir ofan.