Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Tókum mannúð fram yfir peninga“

19.04.2021 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Einar Hermannsson formaður SÁÁ segir að félagið verði af 55 milljónum króna á þessu ári út af þeirra ákvörðun um að hætta þátttöku í rekstri spilakassa.

Þetta kom fram í máli Einars á Rás 1 í morgun. SÁÁ átti rúmlega níu prósenta hlut í Íslandsspilum sem skiptist nú á milli Landsbjargar, sem fyrir átti rúmlega 26 prósent og Rauða Krossins, sem átti 64 prósent.

Einar segist sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun hjá félaginu að draga sig út úr þessum rekstri þrátt fyrir fyrirsjáanlegt tekjutap.

„Við erum að meðhöndla þetta fólk sem verður háð þessum kössum og það er mjög erfitt að vera að réttlæta það að hjálpa fólki upp og sparka svo í það í leiðinni. Þannig að við töldum þetta vera hárrétta ákvörðun og tókum mannúð fram yfir peninga,“ segir Einar.

Ákvörðunin kom til framkvæmda fyrr í þessum mánuði.

„Þegar kassarnir gáfu hvað mest þá voru þetta tæplega 120 milljónir á ári eða 10 milljónir á mánuði sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli í okkar starfsemi. Þetta hefur farið mikið minnkandi á síðastliðnum árum og ég hugsa að þetta ár hefði gefið 55 milljónir. Við ákváðum bara að fara aðrar leiðir til að safna þessum peningum,“ segir Einar. 
 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV