The Vintage Caravan - Monuments

Mynd: Napalm Records / Monuments

The Vintage Caravan - Monuments

19.04.2021 - 14:40

Höfundar

Monuments er fimmta breiðskífa íslensku rokksveitarinnar The Vintage Caravan frá Álftanesi. Hún er að þeirra sögn sú fjölbreyttasta og einlægasta til þessa. Monuments var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði í febrúar og mars í fyrra og hljóðupptökunum var stýrt af Ian Davenport sem hefur unnið mikið með Radiohead, Band of Skulls og Supergrass.

Hljómplatan Monuments er lengsta verk The Vintage Caravan til þessa, eða rétt rúmur klukkutími. Hún inniheldur ellefu lög sem skapa gott ferðalag fyrir hlustandann um víðan völl tónlistar sveitarinnar.

Platan er fyrsta útgáfa sveitarinnar í samvinnu við austurríska útgáfurisanum Napalm Records og hefur verið tekið afskaplega vel af gagnrýnendum. Sem dæmi má nefna að hún var í fyrsta sæti á lista eins stærsta rokktímarits Þýskalands yfir bestu plötur mánaðarins nýlega.

The Vintage Caravan hefur verið ein af virkari hljómsveitum á Íslandi í tónleikahaldi á erlendri grundu á síðustu ár. Faraldurinn gerði það svo að verkum að sveitin hélt sig heima og gat gefið sér góðan tíma til að hljóðblanda plötuna svo hún hljómaði sem allra best.

Textahöfundarnir þeir Óskar Logi og Alexander Örn eru á persónulegu nótunum á Monuments í lögunum Clarity og This One's For You. Síðarnefnda lagið fjallar um bróðurmissi Óskars og er samið um bróðir hans Stefán Jörgen. Lagið Crystallized hefur heyrst töluvert á Rás 2 undanfarið og fjallar um veðráttuna á Íslandi og hve hættuleg hún er. Lagið fjallar um manneskju sem fer þrátt fyrir rauða viðvörun út á land, festir bíl sinn, labbar inn í storminn og hverfur.

Verkið inniheldur bæði það allra léttasta og poppaðasta sem bandið hefur gert hingað til ásamt því allra þyngsta og flóknasta. Lög eins og Forgotten, Sharp Teeth og Dark Times sýna tæknilegu hlið hljómsveitarinnar. Þau eru afar krefjandi í spilun en bandið finnur gott jafnvægi á flóknum stefum og grípandi laglínum. Lög eins og Can't Get You Off My Mind, Hell og Whispers sýna síðan poppaðri hlið The Vintage Caravan þar sem grípandi laglínur ráða ríkjum ásamt hressu rokki.

Plata vikunnar er að þessu sinni Monuments með hljómsveitinni The Vintage Caravan. Hún verður spiluð í heild sinni ásamt skýringum tríósins á tilurð lagana eftir tíu-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Napalm Records - Avalon
The Vintage Caravan - Monuments