Sjónvarpsfréttir: Á fimmta tug smita um helgina

19.04.2021 - 18:10
Á fimmta tug greindust með kórónuveiruna um helgina í tveimur hópsýkingum. Foreldrar eru í áfalli, segir móðir drengs sem smitaðist í leikskólanum Jörfa. Mikill fjöldi sýna var tekinn í dag.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja lýsa þungum áhyggjum af deilu Rússa og Úkraínumanna. 150 þúsund rússneskir hermenn séu nú við landamærin. Sérfræðingur í varnarmálum segir að Rússar vilji með herflutningunum minna á að Úkraína sé á þeirra áhrifasvæði. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að draga þurfi úr vægi ferðaþjónustu í íslensku hagkerfi og styrkja þess í stað hátækniðnað. Fylgjast þarf vel með mögulegri bólumyndun á fasteignamarkaði. 

Húsvíkingar vígðu rauðan dregil í miðbænum í dag og hófu sérstaka Óskars-viku í bænum. Tónlistarmyndband frá höfninni á Húsavík verður spilað á Óskarnum í Hollywood á sunnudaginn.

Hilma Hólm hjartalæknir hjá Íslenskri erfðagreiningu er gestur Jóhönnu Vigdísar í Kastljósi eftir fréttir þar sem hún fer yfir niðurstöður nýrrar rannsóknar á langtímaáhrifum af völdum kórónuveirunnar sem kynntar voru í dag. Rannsóknin byggir á ítarlegri heilsufarsrannsókn á hve alvarlegar afleiðingar farsóttarinnar geta verið.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV