Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óður til þess að mega dreyma

Mynd:  / 

Óður til þess að mega dreyma

19.04.2021 - 14:56

Höfundar

„Samt er maður alltaf að leyfa sér að halda áfram að dreyma en það er alltaf erfiðara og erfiðara," segir Salóme Katrín um drauminn um að spila tónlist sína erlendis í miðjum heimsfaraldri. Í þættinum Þau tóna vel við faraldurinn fékk Sóley Stefánsdóttir þær Katrínu Helgu og Salóme Katrínu til að ræða tónsmíðar sínar og semja svo lag saman fyrir þáttinn.

Katrín Helga og Salóme Katrín eiga þær það sameiginlegt að setjast niður við hljóðfæri og sjá hvað gerist þegar kemur að því að semja lög. Þær eru báðar lítið fyrir að spila eftir fyrir fram ákveðnum nótum. „Hingað til hefur það verið þannig að ég sest niður við píanóið og tek símann og ýti á upptöku og leyfi mér að spila og syngja,” segir Salóme Katrín. Hún komist í ótrúlega verðmætt rými þar sem hún leyfir sé að láta hugann reika. 

Katrín Helga notar svipaða aðferð þegar hún semur popptónlist. „Maður sest við eitthvað hljóðfæri og sér hvað gerist.” 

Hún var vön því að semja á píanó en keypti sér svo bassa og segir að þá hafi ferlið breyst mikið. Allt í einu var hún með hljóðfæri í höndunum sem hún kunni ekkert á. Þá hafi hún farið að prufa sig áfram og hlusta og hugsa öðruvísi þegar kom að tónlist. „Ég var að reyna að láta eitthvað virka og þá urðu til lög sem ég hefði aldrei samið á píanó,” segir Katrín Helga. 

Þegar kom að því að semja lag fyrir þáttinn hafi verið magnað hvað ferlið færði þeim mikla gleði. „Einhvers konar mótspyrna við það sem við höfum verið að búa til og einhvers konar löngun til að það sé gaman,” segir Salóme Katrín. 

Katrín Helga tekur undir þetta og segir lagið að vissu leyti um söknuðinn að vera með vinum sínum og hitta fólkið sem manni þykir vænt um. „Þegar eitthvað svona er tekið frá manni þá fattar maður miku meira: „Já, þetta er eitthvað sem ég sakna mjög mikið.”

Salóme Katrín nefnir einnig draumana sem þær eiga um að spila erlendis en skynilega hafi verið skrúfað fyrir þá drauma út af ferðatakmörkunum. „Það er svo stór hluti af okkar tilveru að láta sig dreyma og eiga drauma. Hvort sem þeir eru raunsæir eða ekki, þá eru þeir á einhvern hátt mögulegir. Með tilkomu COVID hefur það allt saman breyst mjög mikið. Samt er maður alltaf að leyfa sér að halda áfram að dreyma en það er alltaf erfiðara og erfiðara. En lagið er kannski óður til þess, að mega dreyma.”

Tengdar fréttir

Tónlist

Ekki aftur snúið eftir fyrsta tón